Verkfræðingar á æfingu alþjóðabjörgunarsveitarinnar
Helgina 6.-8. nóvember tóku verkfræðingar frá Rannsóknarmiðstöð Háskóla Íslands í jarðskjálftaverkfræði á Selfossi, þau dr. Rajesh Rupakhety dósent og Sólveig Þorvaldsdóttir doktorsnemi, bæði við umhverfis- og byggingarverkfræðideild Háskóla Íslands, þátt í árlegri haustæfingu Íslensku alþjóðabjörgunarsveitarinnar (ÍA) sem haldin var í samstarfi við utanríkisráðuneytið.
Uppsettar æfingaraðstæður voru þær að jarðskjálfti hafði átt sér stað í Hraunlandi og lögð var áhersla á upplýsingamiðlun við raunverulegar aðstæður. Að þessu sinni var samstarf við aðrar alþjóðasveitir, Rauða krossinn og Sameinuðu þjóðirnar æft.
Æfingin var haldin í og við Malarhöfða og voru tjaldbúðir ÍA og Rauða krossins settar upp á planinu við húsakynni Hjálparsveitar skáta í Reykjavík. Teymi innan Íslensku alþjóðabjörgunarsveitarinnar voru send til að kanna ástand mála í nærliggjandi íbúða- og iðnaðarhverfi. Sveitir frá öðrum löndum voru til á pappír og þurftu stjórnendur að taka tillit til þeirra í samhæfingunni.
Um 60 manns tóku þátt í æfingunni, þar af um 15 erlendir sérfræðingar sem voru þátttakendur í námskeiði Samræmingarskrifstofu aðgerða Sameinuðu þjóðanna í mannúðarmálum (OCHA) í samstarfi við Íslensku friðargæsluna um málefni neyðar- og mannúðarmála.
Sólveig er einn af stjórnendum sveitarinnar. Hún var æfingarstjóri og sá um að hanna og setja upp æfinguna í samstarfi við aðra í æfingarstjórn. Rajesh vann sem verkfræðingur sveitarinnar og aðstoðaði vettvangsteymi við að meta hús og brýr sem höfðu „skemmst“. Einnig fór Rajesh með öðrum verkfræðingi sveitarinnar að meta „skemmdir“ á Reykjavíkurflugvelli og möguleikum flugvallarins að taka á móti neyðarsveitum og búnaði. Æfingin fólst í að skoða hvað þarf að meta við þess konar verkefni, ekki að læra á flugvöllinn í Reykjavík sérstaklega. Rajesh er frá Nepal og fór á vegum rannsóknarmiðstöðvarinnar til Nepal strax eftir jarðskjálftann mikla í sumar með mælitæki til að mæla eftirskjálfta. Þar fékk hann reynslu í því að nýta verkfræðikunnáttu sína við raunverulegar aðstæðar sem að ÍA naut góðs af á æfingunni.