Verðlaunaður fyrir afburðaárangur í verkfræði við HÍ
Valentin Oliver Loftsson, BS-nemi í hugbúnaðarverkfræði, hefur hlotið styrk úr Minningarsjóði Þorvalds Finnbogasonar stúdents. Vigdís Finnbogadóttir, systir Þorvalds, afhenti styrkinn við hátíðlega athöfn á Litla torgi fimmtudaginn 21. desember.
Tilgangur sjóðsins er að styrkja efnilega nema í verkfræði við Háskóla Íslands til framhaldsnáms í verkfræði. Nemandi, sem er með hæstu meðaleinkunn eftir annað ár í grunnnámi, hlýtur styrkinn hverju sinni.
Valentin Oliver Loftsson lauk stúdentsprófi frá Verzlunarskóla Íslands vorið 2014 og hóf BS-nám í hugbúnaðarverkfræði haustið 2015. Hann hlaut styrk úr Afreks- og hvatningarsjóði stúdenta Háskóla Íslands fyrir háskólaárið 2015-2016.
Minningarsjóður Þorvalds Finnbogasonar stúdents var stofnaður af foreldrum hans, Sigríði Eiríksdóttur og Finnboga Rúti Þorvaldssyni, fyrrverandi forseta verkfræðideildar Háskóla Íslands. Árlega er veitt viðurkenning úr sjóðnum til afburðanemanda í verkfræði við Háskóla Íslands en sjóðurinn var stofnaður á 21 árs afmæli Þorvalds, þann 21. desember 1952.