Verðlaunaðir fyrir frábæran árangur í stærðfræði
Sigurður Helgason, prófessor í stærðfræði við Massachusetts Institute of Technology (MIT), hefur stofnað verðlaunasjóð við Háskóla Íslands sem veitir viðurkenningar til nemenda í grunnnámi í stærðfræði. Sigurður undirritaði stofnskrá sjóðsins ásamt Jóni Atla Benediktssyni, rektor Háskóla Íslands, við hátíðlega athöfn á Litla torgi 1. september sl. en við sama tilefni var fyrstu styrkjum úr sjóðnum úthlutað til þriggja nemenda Háskóla Íslands.
Stofnfé sjóðsins er 11.000 bandaríkjadalir. Að auki lagði Sigurður til 8.000 bandaríkjadali til þess að veita verðlaun úr sjóðnum samhliða stofnun hans. Reiknað er með að styrkir verði veittir úr sjóðnum árlega.
Þeir sem hlutu verðlaun að þessu sinni eru:
Árni Freyr Gunnarsson, BS í stærðfræði. Árni Freyr lauk námi í tónsmíðum á Ítalíu áður en hann hóf nám í stærðfræði við Háskóla Íslands árið 2014. Hann lauk BS-prófi í vor með meðaleinkunn 10.
Pétur Rafn Bryde, BS í stærðfræði og eðlisfræði. Pétur Rafn hóf nám við Háskóla Íslands árið 2013. Hann lauk BS-prófi í báðum greinum í vor með frábærum árangri og hefur hann einnig hlotið verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í eðlisfræði. Hann hefur í haust framhaldsnám við Harvard-háskóla.
Sigurður Jens Albertsson, BS-nemi í stærðfræði. Sigurður Jens hóf nám í stærðfræði við Háskóla Íslands haustið 2015 og hefur á tveimur árum lokið nánast öllum námskeiðum í stærðfræði sem Háskóli Íslands býður upp á, með frábærum árangri.
Um Verðlaunasjóð Sigurðar Helgasonar prófessors
Stofnandi sjóðsins, Sigurður Helgason, fæddist á Akureyri 30. september 1927 og lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1945. Eftir ársnám við verkfræðideild Háskóla Íslands hélt Sigurður til Danmerkur þar sem hann lauk Mag. Scient. prófi í stærðfræði frá Kaupmannahafnarháskóla 1952. Hann hélt þá til frekara náms við Princeton-háskóla í Bandaríkjunum og lauk þaðan doktorsprófi 1954. Sigurður kenndi við Princeton-háskóla, Chicago-háskóla og Columbia-háskóla og varð prófessor við MIT árið 1965. Eftir hann liggja fjölmargar bækur og vísindagreinar um stærðfræði. Sigurður hefur verið heiðursdoktor við Háskóla Íslands frá árinu 1986 og er heiðursfélagi Íslenska stærðfræðifélagsins.
Styrktarsjóðir á borð við Verðlaunasjóð Sigurðar Helgasonar eru mikil lyftistöng fyrir Háskóla Íslands. Skólinn hefur notið mikils velvilja af hálfu fjölmargra einstaklinga á undanförnum árum en þeir hafa af miklum rausnarskap lagt fé í styrktarsjóði sem allir miða að því að hvetja nemendur skólans til dáða, efla vísindarannsóknir og afla nýrrar þekkingar, samfélaginu til heilla.