Skip to main content
4. október 2022

Varði doktorsritgerð um þróun tilbrigða í framburði

Varði doktorsritgerð um þróun tilbrigða í framburði - á vefsíðu Háskóla Íslands

Margrét Guðmundsdóttir hefur varið doktorsritgerð í íslenskri málfræði við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Ritgerðin nefnist Mál á mannsævi. 70 ára þróun tilbrigða í framburði  einstaklingar og samfélag. Andmælendur við vörnina voru Ari Páll Kristinsson, rannsóknarprófessor við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, og Finnur Friðriksson, dósent við Háskólann á Akureyri. Doktorsritgerðin var unnin undir leiðsögn Höskuldar Þráinssonar, prófessors emeritusar við Háskóla Íslands. Einnig voru í doktorsnefnd Helge Sandøy, prófessor emeritus við Háskólann í Bergen, og Kristján Árnason, prófessor emeritus við Háskóla Íslands.

Jón Karl Helgason, varaforseti Íslensku- og menningardeildar, stjórnaði athöfninni sem fór fram í Hátíðasal í Aðalbyggingu Háskóla Íslands 3. október. Smellið hér til að skoða myndir frá vörninni.

Um rannsóknina

Í doktorsritgerðinni rannsakar Margrét tilbrigði í íslenskum framburði, nánar tiltekið eftirtalin fjögur pör þar sem fyrrnefnda afbrigðið er sjaldgæfara á landsvísu og útbreiðsla þess að mestu tengd afmörkuðum landsvæðum: Harðmæli/linmæli, raddaður/óradd­aður framburður, hv-/kv-framburður og skaftfellskur einhljóðaframburður/tvíhljóða­fram­burður. Efniviðurinn samanstendur af þremur framburðarrannsóknum sem unnið var að á 70 ára tímabili: Rannsókn Björns Guðfinnssonar frá 5. áratug 20. aldar, RÍN, Rannsókn á íslensku nútímamáli, frá 9. áratugnum og RAUN, Málbreytingar í raun­tíma í íslensku hljóð­kerfi og setningagerð, sem hófst árið 2010. Enn fremur voru viðhorf til framburðarafbrigða könnuð í tengslum við rannsóknina. Þessi efniviður er nýttur til að kanna þróun landshlutabundnu afbrigðanna fjögurra á kjarnasvæðum sínum og málþróun yfir æviskeiðið, ævibreytingar, en hluti þátttakenda tók þátt í ýmist tveimur eða þremur rannsóknum. Hvort tveggja er skoðað frá sjónarhóli málkunnáttufræði og félagslegra málvísinda. 

Um doktorinn

Margrét Guðmundsdóttir lauk BA-prófi í íslensku og meistaraprófi í íslenskri málfræði frá Háskóla Íslands. Hún er verkefnisstjóri Hugvísindastofnunar.

Kristján Árnason, Jón Karl Helgason, Finnur Friðriksson, Margrét Guðmundsdóttir, Ari Páll Kristinsson, Ólöf Garðarsdóttir og Höskuldur Þráinsson.

Kristján Árnason, Jón Karl Helgason, Finnur Friðriksson, Margrét Guðmundsdóttir, Ari Páll Kristinsson, Ólöf Garðarsdóttir og Höskuldur Þráinsson.