Útskriftarnemar verðlaunaðir fyrir námsárangur í eðlisfræði og efnafræði
Tveir nemendur sem útskrifast úr grunnnámi með BS-gráðu í eðlisfræði og efnafræði við Háskóla Íslands háskólaárið 2019-2020 hljóta verðlaun úr Verðlaunasjóði Guðmundar P. Bjarnasonar frá Sýruparti á Akranesi í ár. Verðlaunin voru veitt við hátíðlega athöfn fimmtudaginn 18. júní. Verðlaunaféð nemur tveimur milljónum króna.
Björn Áki Jósteinsson hlýtur eina milljón króna fyrir námsárangur í verkfræðilegri eðlisfræði með ágætiseinkunn. Björn Áki mun hefja framhaldsnám í skammtaverkfræði við ETH í Sviss í haust.
Guðmundur Björgvin Magnússon hlýtur eina milljón króna fyrir námsárangur í lífefnafræði sömuleiðis með ágætiseinkunn. Guðmundur Björgvin ráðgerir framhaldsnám á næsta ári í líffræðilegri eðlisfræði eða hugsanlega lífupplýsingafræði.
Átti ekki kost á að stunda háskólanám
Verðlaunasjóður Guðmundar P. Bjarnasonar frá Sýruparti á Akranesi var stofnaður árið 2000 með rausnarlegri gjöf Guðmundar, sem hann bætti síðar tvívegis í. Hann fæddist á Sýruparti á Akranesi 1909 og bjó um árabil á Höfða, dvalarheimili aldraðra á Akranesi. Guðmundur P. Bjarnason lést í febrúarmánuði 2006 í hárri elli. Hann átti þess ekki kost að stunda háskólanám en starfaði sem netagerðarmaður og fiskmatsmaður á Akranesi auk þess að stunda útgerð í félagi við bróður sinn. Guðmundur var einn af stofnendum Knattspyrnufélagsins Kára árið 1922 og Taflfélags Akraness árið 1933.
Ljóst er að hlutfallslega færri nemendur sækja háskólanám í eðlisfræði og efnafræði á Íslandi en í samanburðarlöndum okkar. Stuðningur Guðmundar við háskólanemendur í eðlis- og efnafræði er því mikilvægt lóð á þá vogarskál að hvetja unga Íslendinga að sækja nám í þessum fögum.
Stjórn Verðlaunasjóðs Guðmundar P. Bjarnasonar frá Akranesi skipa Guðmundur G. Haraldsson, prófessor í efnafræði, sem er formaður, Hafliði Pétur Gíslason, prófessor í eðlisfræði, og Eiríkur Dór Jónsson, fulltrúi Arion banka sem er vörsluaðili sjóðsins samkvæmt skipulagsskrá.