Umfangsmilklar Evrópurannsóknir í Kröflu
Þessa dagana standa yfir umfangsmiklar mælingar í Kröflu á vegum Evrópuverkefnisins IMPROVE en eitt helsta markmið þess er að varpa nýju ljósi á samband jarðhitasvæðisins við kviku í rótum Kröflu.
Mælingarnar í Kröflu munu standa fram í júlí en núna vinna 30 til 40 manns að þeim. Að sögn Magnúsar Tuma Guðmundssonar, prófessors við HÍ, liggur mesta vinnan í nákvæmum jarðskjálfta- og jarðviðnámsmælingum.
„Tilgangur þeirra er að staðsetja betur hvar kviku er að finna undir Kröflu, skoða samspil jarðhita og kviku og rannsaka af meiri nákæmni en áður gerð og lagskiptingu bergs innan Kröfluöskjunnar. Einnig er unnið að mælingum á efnasamsetningu jarðhitavökva og eiginleikum og útbreiðslu jarðhita á yfirborði með eðlis- og efnfræðilegum mælingum,“ segir Magnús Tumi og bætir því við að í Evrópuverkefninu IMPROVE sé unnið að rannsóknum á tveimur lykileldstöðvum í Evrópu, Kröflu og Etnu á Sikiley.
Að IMPROVE koma tólf háskólar og rannsóknastofnanir í Evrópu en Eldfjallastofnun Ítalíu (INGV) er í forsvari fyrir verkefninu. Hér á landi er það Jarðvísindastofnun Háskólans sem leiðir verkefnið en Landsvirkjun tekur einnig virkan þátt. IMPROVE er doktorsnemaverkefni, styrkt gegnum Marie Curie áætlun Evrópusambandsins. Í verkefninu er 15 doktorsnemar, þar af tveir við Háskóla Íslands. Níu nemanna vinna verkefni um Kröflu og sex um Etnu.
„Í Kröflu er eitt mest rannsakaða jarðhitasvæði jarðar og í Kröflu hefur verið rekin jarðhitavirkjun í nokkra áratugi þar sem fengist hefur mikil reynsla á tengsl virkjunar og jarðhitasvæðis,“ segir Magnús Tumi Guðmundsson. Að hans sögn hefur auk þess verið boraði niður á kviku á 2,1 km dýpi við Kröflu, en fá dæmi eru um slíkt annars staðar.
Áhugi vísindafólks gríðarlegur á Kröflu
Krafla er í hópi þeirra eldstöðva á jörðinni sem mest hafa verið rannsakaðar og áhugi vísindafólks á henni er mikill. Magnús Tumi segir að ástæðurnar fyrir því séu m.a. Kröflueldarnir frá 1975 til 1984 , en þá fékkst að hans sögn í fyrsta sinn góð sýn á hvernig landið gliðnar þegar kvikugangar myndast.
„Í Kröflu er eitt mest rannsakaða jarðhitasvæði jarðar og í Kröflu hefur verið rekin jarðhitavirkjun í nokkra áratugi þar sem fengist hefur mikil reynsla á tengsl virkjunar og jarðhitasvæðis,“ segir Magnús Tumi. Að hans sögn hefur auk þess verið boraði niður á kviku á 2,1 km dýpi við Kröflu, en fá dæmi eru um slíkt annars staðar.
„Áform eru um að bora sérstaka holu til að kanna kvikuna og koma fyrir rannsóknabúnaði svo hægt sé að rannsaka kvikuna í jarðskorpunni en verkefnið kallast Krafla-Magma-Testbed en að því stendur fjölþjóðlegur hópur.“
Etna rannsökuð – Tíð gos með hraunrennslu eða öskufalli
Auk Kröflu er Etna á Sikiley viðfangsefni verkefnisins. Magnús Tumi segir að Etna sé stærsta eldfjall Evrópu og það mikilvirkasta. „Þar eru eldgos tíð með hraunrennsli niður hlíðarnar auk þess sem stundum er verulegt gjóskufall. Mikil byggð er við rætur Etnu sem kallar á öflugt eftirlit. Auk grunnrannsókna er lögð áhersla í verkefninu að efla samstarf fyrirtækja á sviði jarðhitanýtingar og vísindafólks sem vinnur að rannsóknum á eldfjöllum og jarðhitasvæðum.“
Þess má geta að á morgun, þann 28. júní, verður haldinn kynningarfundur um verkefnið í Skjólbrekku í Mývatnssveit. Fundurinn er öllum opinn og þar verða viðfangsefni IMPROVE kynnt fyrir heimafólki og öðrum þeim sem áhuga hafa. Fundurinn verður milli kl. 17 og 19 – nánar í héraðsfréttablaði Þingeyjarsveitar.