Þróa nýtt hagfræðilíkan fyrir heiminn
Fyrsti fundur aðstandenda alþjóðlegs rannsóknaverkefnis, sem miðar að því að að þróa nýtt hagfræðilíkan fyrir heiminn og þjálfa nýja kynslóð vísindamanna í sjálfbærnirannsóknum, var haldinn í Háskóla Íslands dagana 14. og 15. desember.
Verkefnið ber heitið Aðlögun að nýjum hagfræðiraunveruleika (AdaptEcon) og er ætlun vísindamanna sem að því standa að þróa nýtt hagfræðilíkan sem byggt er á sjálfbærri nýtingu á náttúruauðlindum í heiminum. Tólf doktorsnemar taka þátt í verkefninu, sem hlaut 500 milljóna króna styrk frá Marie Curie áætlun Evrópusambandsins, og verða þeir þjálfaðir í þverfaglegum hugsunarhætti sem byggður er á náttúruvísindum, lífeðlisfræðilegri hagfræði og stefnumótun sem byggð er á skýrum gögnum. Þessi fræði verða tvinnuð saman með svokölluðum kvikum kerfislíkönum.
Kristín Vala Ragnarsdóttir, prófessor í Jarðvísindadeild, leiðir verkefnið og hennar samstarfsfólk í Háskóla Íslands eru Brynhildur Davíðsdóttir, prófessor í umhverfis- og auðlindafræði, og Harald Sverdrup, prófessor í iðnaðarverkfræði. Grunninn að doktorsverkefnunum tólf er að finna í nýlegri grein sem ber heitið Náttúruauðlindir frá sjónarhóli plánetu.
Verkefnið er unnið í samvinnu við Stokkhólmsháskóla og Universite Blaise Pascal í Clairmont Ferrand í Frakklandi. Auk þess koma fimm stofnanir og félagasamtök að þjálfuninni: Schumacher Institute í Bristol á Englandi, New Economics Foundation í London í Englandi, Swedish National Defence College í Stokkhólmi í Svíþjóð, Wuppertal Institute í Berlín í Þýskalandi og Institute of Economic Structures Research í Osnabrück í Þýskalandi.