Team Spark kynnti markmið vetrarins fyrir bakhjörlum
Hönnunar- og kappakstursliðið Team Spark, sem skipað er verkfræðinemum við Háskóla Íslands, hélt sitt árlega styrktaraðilakvöld í húsakynnum Marel á dögunum þar sem liðið kynnti þau markmið sem það hefur fyrir veturinn, skrifaði undir samstarfssamninga við bakhjarla og sýndi rafknúna kappakstursbílinn TS17 LAKA.
Team Spark er nemendadrifið þróunarverkefni við Verkfræði- og náttúruvísindasvið Háskóla Íslands en að því koma rúmlega 40 háskólanemar í grunn- og framhaldsnámi. Verkefnið snýst um að þróa, hanna og smíða eins manns rafknúinn kappakstursbíl frá grunni og hefur liðið farið utan með hönnun sína undanfarin ár og att kappi við aðra háskólanema í stærstu alþjóðlegu verkfræðinemakeppni í heimi, Formula Student.
„Það að hafa verkefni líkt og Team Spark innan Verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands er mikilvægt því það gefur nemendum aðgang að annars konar menntun en við getum boðið upp á. Nemendur kynnast fyrirtækjum beint ásamt því að rekast á alls konar hindranir og erfiðleika sem eflir þá,“ sagði Sigurður Magnús Garðarsson, forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands, á styrktaraðilakvöldi Team Spark sem haldið var í höfuðstöðvum Marel fimmtudaginn 19. október. Þangað komu saman styrktaraðilar og aðrir velunnarar liðsins og farið var yfir gengi síðasta starfsárs og nýtt lið með ný markmið kynnt til sögunnar.
Þar sem verkefnið er eingöngu fjármagnað með hjálp styrktaraðila var þeim þakkað kærlega fyrir þá vinnu sem þeir hafa lagt í verkefnið. Jafnframt var skrifað undir samstarfssamninga við aðalstyrktaraðila liðsins, Marel, Rafnar og Össur, fyrir komandi keppnisár. Auk þess var nýjasti bíll Team Spark, LAKI, tekinn til kostanna á planinu við höfuðstöðvar Marel.
„Það hefur verið mikill stígandi í verkefninu og flott að sjá hvað það vex ár frá ári. Liðinu er að takast að skila þekkingu milli ára, sérstaklega þegar kemur að því að pakka starfinu inn. Þau ná að gera verkefnið áþreifanlegt gagnvart þeim sem koma að því,“ sagði Nótt Thorberg, framkvæmdastjóri Marel, m.a. við þetta tilefni.
Helstu markmið Team Spark í ár eru að flýta framleiðslu bílsins og prufukeyra hann 100 km áður en haldið verður út á keppnismót næsta sumar. Liðið er með öflug umhverfis- og samfélagsmarkmið og lagt er upp úr vistvænum vinnubrögðum ásamt því sem liðið vinnur að eflingu tækniþekkingar með fræðslu í grunn- og framhaldsskólum landsins.
Hægt er að fylgjast með liðinu á öllum helstu samskiptamiðlum undir TeamSparkFs. Á Facebook-síðu liðsins má t.d. sjá myndband af akstri LAKA á styrktaraðilakvöldinu.