Skip to main content
28. júní 2018

Team Spark afhjúpar kappakstursbíl ársins 2018

""

Team Spark, kappaksturslið verkfræðinema við Háskóla Íslands, afhjúpaði rafknúna kappakstursbílinn TS18 á Háskólatorgi í dag að viðstöddu fjölmenni, þar á meðal helstu bakhjörlum liðsins úr atvinnulífinu. Liðið heldur utan með bílinn til Spánar í lok ágúst til þess að taka þátt í alþjóðlegri kappaskturs- og hönnunarkeppni stúdenta undir merkjum Formula Student í Barcelona.

Um 40 nemendur úr ýmsum deildum Verkfræði- og náttúruvísindasviðs hafa tekið átt í hönnun bílsins í allan vetur og m.a. fengið vinnuna metna sem hluta af námi sínu við Háskóla Íslands. Team Spark leggur sem fyrr áherslu á hönnun rafknúins og umhverfisvæns bíls. Það útheimtir mun meiri vinnu en þróun bensínbíls þar sem töluvert meiri kröfur eru gerðar til rafmangsbíla til þess að þeir megi aka í Formula Student. Hönnun nýja bílsins byggist á grunni TS17 – LAKA, bíls síðasta árs, en þó var ráðist í miklar breytingar á burðarvirki bílsins sem gerði það að verkum að framleiðslutíminn lengdist töluvert og reyndi það mikið á liðsmenn. Liðið hefur ekki áður ráðist í hönnun sem þessa og en þess má geta að mörg af bestu Formula Student liðum heims notast við sambærilega hönnun.

Lið frá Háskóla Íslands hafa tekið þátt í hönnunar- og kappakstursmótum háskólanema allt frá árinu 2011 og oftast farið til Bretlands þar sem Formula Student fer fram á hinni fornfrægu Silverstone-braut. Á síðustu árum hafa lið skólans einnig reynt fyrir sér í Formula Student keppnum bæði á Ítalíu og í Austurríki og m.a. vakið athygli fyrir hugvitsamlega hönnun á vængjum bílsins. Liðsmenn í Team Spark hafa í ár sett stefnuna á Formula Student Spain sem fer fram í Circuit de Barcelona-Catalunya dagana 21.-24. ágúst. Þar mun liðið etja kappi við um 70 lið verkfræðinema frá háskólum víða að úr Evrópu.

Alla jafna er keppt í tveimur flokkum í Formula Student. Í flokki 1 eru lið dæmd út frá bæði hönnun einstakra hluta bílsins og akstri hans á kappakstursbraut en í flokki 2 eru hönnun og áætlanir kynntar en ekki er keppt í kappakstri. Team Spark hyggst keppa í flokki 1 líkt og undanfarin ár.

Team Spark hefur ekki aðeins látið til sín taka við hönnun nýs bíls í vetur heldur einnig tekið þátt í ýmsum viðburðum, m.a. í samstarfi við helstu bakhjarla sína sem eru mörg af stærstu fyrirtækjum landsins. Team Spark hefur í vetur m.a. kynnt starf sitt og bíl síðasta árs á Vistvænum dögum hjá Heklu, Rafbíladögum hjá Iðunni, UT-messunni og Degi verkfræðinnar hjá Verkfræðingafélagi Íslands. 

Berglind Höskuldsdóttir, einn liðsmanna Team Spark, segir liðið fullt tilhlökkunar fyrir Spánarferðinni. „Markmið okkar í ár er að auka við stigafjöldann frá síðasta ári, þá sérstaklega í aksturshluta keppninnar en LAKI komst ekki í gegnum allar prófanir í fyrra til þess að taka þátt í aksturhlutanum. Stærsta markmiðið er þó alltaf að hafa gaman af þessu og læra eitthvað nýtt,“ segir hún.
 

Team Spark liðar ásamt bílnum glæsilega, TS18, að lokinni afhjúpun á Háskólatorgi í dag. Team Spark liðar ásamt bílnum glæsilega, TS18, að lokinni afhjúpun á Háskólatorgi í dag.
Hulunni svipt af glæsikerrunni í dag.
Gestir skoða nýja bílinn