Sveppa leitað í Heiðmörk með HÍ og Ferðafélaginu
Háskóli Íslands og Ferðafélag barnanna, undirdeild Ferðafélags Íslands, standa saman að árlegri ferð á slóðir sveppa í Heiðmörk laugardaginn 26. ágúst kl. 11. Leitað verður að gómsætum sveppum undir styrkri leiðsögn Gísla Más Gíslasonar, prófessors við Háskóla Íslands, og samstarfsfólks hans. Ferðin er öllum opin og er þátttaka ókeypis.
Háskólinn og Ferðafélagið hafa undanfarin ár staðið fyrir ferðum í Heiðmörk á þessum tíma árs þegar hægt er að sækja ýmiss konar góðgæti út í náttúruna, eins og sveppi og ber. Þær hafa verið afar vel sóttar og til að mynda mættu á fjórða hundrað manns í Heiðmörk og leituðu sveppa í fyrra.
Það er hins vegar ekki hægt að borða alla sveppi í íslenskri náttúru og því mikilvægt að fá aðstoð kunnáttufólks við að greina þá ætu frá þeim eitruðu. Á þriðja þúsund sveppir hafa verið skráðir á Íslandi en einungis brotabrot þeirra, eða um 30 tegundir, teljast ætar. Þeirra á meðal eru furusveppur, lerkisveppur, kantarella, merarostur og kúalubbi en margar tegundanna má finna bæði í skógarlundum og á víðavangi.
Auk Gísla Más munu líffræðingarnir Lísa Anne Libungan, sérfræðingur hjá Hafrannsóknastofnun, og Hildur Magnúsdóttir og Ragnhildur Guðmundsdóttir, doktorsnemar við Háskóla Íslands, vera göngugestum innan handar og hjálpa þeim að greina æta sveppi frá óætum ásamt því að gefa góð ráð um matreiðslu þeirra og geymslu til lengri tíma. Göngugestir eru því hvattir til að taka með sér ílát fyrir sveppi sem þeir tína.
Hist verður á svokölluðu borgarstjóraplani í Heiðmörk kl. 11 á laugardag, en planið er í 3,7 km fjarlægð frá Rauðhólum þegar Heiðmerkurvegur er ekinn. Áætlað er að ferðin taki á bilinu tvær til þrjár klukkustundir.
Að sögn Gísla er almennur sveppavöxtur ekki mikill yfir hásumarið en í seinni hluta ágústmánaðar og fram á haust tekur hann við sér, eða þar til það fer að kólna og frysta. Rigning örvar sveppavöxt og síðustu vikur hafi verið þurrar á suðvesturhorni landsins en von er á rigningu á morgun, föstudag, og fram á laugardag sem ætti að örva vöxtinn. „Við ættum því að finna þónokkuð á laugardaginn. Einnig verður hlýtt í veðri,“ segir Gísli Már.
Sveppaferðin í Heiðmörk er liður í áralöngu samstarfi Háskóla Íslands og Ferðafélags Íslands um gönguferðir undir yfirskriftinni „Með fróðleik í fararnesti“. Það má rekja aftur til ársins 2011 þegar Háskólinn fagnaði aldarafmæli sínu. Markmiðið með ferðunum er að nýta bæði reynslu og þekkingu fararstjóra Ferðafélagsins og þekkingu kennara og vísindamanna Háskólans í stuttum en áhugaverðum ferðum fyrir almenning á og í nágrenni höfuðborgarsvæðisins. Ferðirnar hafa verið opnar öllum og ókeypis.