Skip to main content
1. júní 2022

Sveigjanlegar og sjálfbærar hafnir

Sveigjanlegar og sjálfbærar hafnir - á vefsíðu Háskóla Íslands

Hann vann á eyrinni vikuna alla    
og fór í aðgerð ef vel gaf.
Og vel hann dugði til að afferma dalla
og dag né nótt hann varla svaf. 

Svona sungu Dátar í eina tíð um hafnarverkamanninn Gvend á eyrinni, en algengt er að hafnarsvæðið í íslenskum sjávarplássum sé staðsett á eyri. Þegar þetta orð „eyrin“ var hvað tamast fólki var hafnarsvæðið gjarnan frumstætt en sumpart heillandi uppspretta mannlífs enda endurspeglaði höfnin uppganginn í þorpinu, var hjartað í plássinu. 

Hafnir hafa þróast í að verða hátæknileg athafnasvæði búin öflugum og flóknum tækjum og stýrt af ferlum til að tryggja öryggi, afköst og hagkvæmni. Hin síðustu ár hafa komið fram nýjar kröfur um meiri sveigjanleika hafnarsvæða og sjálfbærni í rekstri. Þetta hefur leitt til þess að hafnir eru jafnvel skilgreindar sem lokuð öryggis- og iðnaðarsvæði og eru því ekki viðkomustaðir í sunnudagsbíltúrum eins og áður var. 

„Hafnir hafa mikilvæga stöðu í aðfangakeðjum og hagkerfum þjóða. Þær þjóna mikilvægu hlutverki í fjölþættum flutningskerfum þar sem þær eru miðstöð flæðis fyrir vörur, gáma og farþega,“ segir Majid Eskafi, nýdoktor í umhverfisverkfræði við Háskóla Íslands um þetta merkilega fyrirbæri – höfnina. 

Majid vinnur nú að sérhæfðri rannsókn á hafnarstarfsemi í samstarfi við íslenskt atvinnulíf í anda nýrrar stefnu Háskóla Íslands, HÍ26. Í nýju heildarstefnunni er tiltekið að rannsóknir innan HÍ eigi að mæta þörfum íslensks samfélags og atvinnulífs og stuðla að sjálfbærum heimi. Þessi rannsókn Majid Eskafi og samstarfsaðila hefur skýr tengsl við allt þetta.

Þróa hafnaráætlun til að takast á við breytingar

Í rannsókninni er ætlunin að þróa nýstárlega hafnaráætlun með miklum sveigjanleika sem tryggir reksturinn á tímum stöðugra breytinga og að hagvöxtur allrar starfseminnar sé í sátt við umhverfi og samfélag, bæði nú og þegar til lengri tíma er litið. Í því efni er horft til samfélagslegrar ábyrgðar en rannsóknin er gerð í samstarfi við fjölmarga hagsmunaaðila sem tengjast hafnarstarfsemi Ísafjarðarbæjar. Ísafjörður er með margar hafnir, en sú stærsta er einmitt við Eyrina í kaupstaðnum á Skutulsfirði. 
 
„Umferð gámaskipa hefur aukist í höfnum um allan heim vegna hnattvæðingar í viðskiptum,” segir Majid, aðspurður um kveikjuna að verkefninu. „Fyrirtæki sem reka skemmtiferðaskip leita auk þess í auknum mæli að nýjum viðkomustöðum eins og gerst hefur á Ísafirði.“

Majid segir að iðnaðarútgerð, fiskeldi og önnur virðisaukandi starfsemi sé í örum vexti fyrir vestan sem hafi veruleg áhrif á athafnir í höfnum þar. Hann bendir líka á að óvæntir þættir geti snarbreytt starfsemi hafnarsvæða, nánast á einni nóttu. Í því sambandi nefnir hann COVID-19-heimsfaraldurinn sem stöðvaði umferð skemmtiferðaskipa til Ísafjarðar auk þess sem siglingar skipa tóku almennt miklum breytingum þar eins og í heiminum öllum. Þá nefnir Majid einnig að snjóflóð geti haft alvarlegar afleiðingar fyrir hafnir eins og gerðist á Flateyri fyrir tveimur árum. „Þetta gerir það að verkum að skipulagsgerð hafna er sérstaklega krefjandi verkefni sem er háð mikilli óvissu.“ 

„Sveigjanleikinn gerir höfnina betur búna til að laga sig að breytingum í framtíðinni. Áætlunin gerir höfninni kleift að stækka sem skapar samlegðaráhrif á milli vaxandi umsvifa og ávinningsins sem til fellur. Þess vegna geta næstu kynslóðir á Ísafirði aðlagað allt sem að starfinu víkur í tíma, þ.e. innviði, rekstur og þjónustu hafnarinnar, til að fullnægja kröfum sem kunna að koma upp í framtíðinni,“ segir Guðmundur Freyr Úlfarsson, prófessor í samgönguverkfræði. MYND/Kristinn Ingvarsson

Mikilvægt að hafnir séu sveigjanlegar

Guðmundur Freyr Úlfarsson, prófessor í samgönguverkfræði, er leiðbeinandi Majids í þessu verkefni. Hann segir að markmiðið í rannsókninni sé að þróa áætlun með sveigjanleika og seiglu þannig að hafnir Ísafjarðarbæjar fullnægi þörfum hagsmunaaðila og að rekstur þeirra þoli truflanir á líftíma áætlunarinnar. 

Þeir Majid og Guðmundur segja þetta brýnt því að sveigjanleg höfn lagi sig að nýjum aðstæðum sem hún verði stöðugt að starfa við. Sveigjanleikinn tryggi virkni hafnarinnar og þjónustugæði. Þá sé áríðandi að sjálfbær áætlun sé í samræmi við verndun náttúrulegs umhverfis, t.d. með sérhæfðum mannvirkjum eins og flotbryggjum, sem hafi minni umhverfisáhrif en ýmsar aðrar bryggjur, og með orkuskiptum eða rafvæðingu sem dragi úr þörf á að keyra jarðeldsneytisvélar skipa í höfnum. Þannig vinni höfnin ekki aðeins gegn loftslagsbreytingum með nýjum áherslum heldur aðlagist hún einnig áhrifum breytinganna.

Þeir félagar segja að í rannsókninni hafi farið fram vel mótuð hagsmunagreining og árangur af rekstri breyttrar hafnar sé metinn með hliðsjón af tíma og mögulegri samkeppnishæfni hafnarinnar. 

„Í rannsókninni greinum við gegnumstreymi um höfnina og spáum fyrir um eðli þess í framtíðinni. Niðurstaðan sýnir aukin afköst í gámaflutningum. Við þróuðum líka ramma til að takast á við óvissu, hvort tveggja tækifæri og veikleika í heildarferli skipulagsins fyrir höfnina í sýnilegri framtíð,“ segir Majid.

Sveigjanleg höfn styður samfélag og umhverfi

Guðmundur segir að þetta sé fyrsta rannsóknin af þessum toga á Íslandi og að hún sé styrkt af Rannsóknarsjóði Háskóla Íslands, Ísafjarðarbæ, Rannsóknarsjóði Vegagerðarinnar og Hafnasambandi Íslands. 

„Sveigjanleikinn gerir höfnina betur búna til að laga sig að breytingum í framtíðinni. Áætlunin gerir höfninni kleift að stækka sem skapar samlegðaráhrif á milli vaxandi umsvifa og ávinningsins sem til fellur. Þess vegna geta næstu kynslóðir á Ísafirði aðlagað allt sem að starfinu víkur í tíma, þ.e. innviði, rekstur og þjónustu hafnarinnar, til að fullnægja kröfum sem kunna að koma upp í framtíðinni.“

Majid segir að verkefni af þessum toga skipti miklu máli, ekki bara fyrir hafnarsvæði sveitarfélagsins, heldur líka fyrir samfélagið allt. Hann bendir á að verkefnið styðji auk þess á ýmsan veg við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. 

„Sveigjanleg og sjálfbær áætlun styður tengsl atvinnulífsins við samfélagið enda eru höfnin og samfélagið í sambýli og verða að þróast farsællega í sameiningu. Virk höfn styrkir efnahag nærliggjandi samfélags,“ segir Majid og bendir á að verkefnið sé rækilega í anda heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna sem hafa það í háskerpu að gera borgir og íbúðarsvæði örugg, sjálfbær og aðgengileg og líka að stuðla að viðvarandi sjálfbærum hagvexti og arðbærum og mannsæmandi atvinnutækifærum fyrir alla.

Auk þeirra Majids og Guðmundar koma eftirfarandi að rannsókninni: Ali Dastgheib, dósent í strandverkfræði og hafnarþróun við IHE Delft, Stofnun í vatnsfræðum í Hollandi, Poonam Taneja, vísindamaður við deild hafna og vatnssamgangna hjá TU Delft í Hollandi, Gunnar Stefánsson, prófessor í iðnaðarverkfræði við HÍ, og Ragnheiður I. Þórarinsdóttir, rektor LBHÍ og gestaprófessor í umhverfis- og byggingarverkfræði við HÍ. 

Majid Eskafi