Styrkur til að rannsaka hellamyndun í hrauninu við Fagradalsfjall
Vísindamenn við Jarðvísindastofnun Háskólans eru meðal þeirra sem koma að rannsókn á hellamyndun í hrauninu við Fagradalsfjall en rannsakendur fengu nýverið styrk frá National Geographic Society til verkefnisins.
Eldgosið í Fagradalsfjalli í fyrra vakti athygli víða um heim og dró að sér mikinn fjölda gesta sem fylgdist með framrás hraunsins í dölunum í kringum eldstöðina. Glóandi hraunfossar runnu um svæðið, sumir þeirra undir yfirborði hraunsins þar sem þeir mynduðu hraunhella eða -göng. Slíkir hellar í nýmynduðum hraunum þykja afar áhugavert rannsóknarefni og því ákvað alþjóðlegur hópur vísindamanna á sviði hellafræða að hefja rannsókn á þeim strax að loknu gosi með það fyrir augum að varpa mögulega ljósi á sambærilega hellamyndun á öðrum plánetum.
Verkefnið leiðir ítalski hellafræðingurinn Fransisco Sauro frá rannsóknahópnum La Venta en hann státar af mikilli reynslu af hellarannsóknum víða um heim. Hann sótti um styrk til verkefnisins frá National Geographic Society og tilkynnt var á dögunum að hópurinn hefði hlotið hann.
Innan Háskóla Íslands koma Gro Birkefeldt Möller Pedersen, rannsóknasérfræðingur við Jarðvísindastofnun Háskólans, og meistaraneminn Kimberley Jean Hutchinson að rannsóknum á vettvangi ásamt því að leggja til gögn sem safnað var á meðan á gosinu stóð og kortleggja myndun og þróun hraunhellanna.
Aðalrannsóknaleiðangur hópsins verður næsta vor.