Sóttu stjórnendaþjálfun um sjálfbært starfsumhverfi
Á fjórða tug stjórnenda í norrænum háskólum sótti í vikunni tveggja daga námskeið í Háskóla Íslands sem markar upphaf þátttöku þeirra í stjórnendaþjálfun á vegum NUAS-samtakanna. Þema þjálfunarinnar er sjálfbært vinnusamfélag í norrænum háskólum.
NUAS-samtökin eða „Det Nordiska Universitets Administratörs Samarbetet“ er samstarfsvettvangur 64 háskóla á Norðurlöndum. Háskóli Íslands leiðir um þessar mundir starf NUAS. Innan samtakanna starfa faghópar sem leggja áherslu á ólíkar hliðar stjórnsýslunnar. Hóparnir standa fyrir málþingum, veffyrirlestrum og ráðstefnum sem starfsfólki háskólanna stendur til boða að sækja.
NUAS-samtökin standa einnig fyrir þjálfun fyrir stjórnendur í stjórnsýslu aðildarskólanna með reglulegu millibili. Markmiðið er að gera stjórnendurna betur undirbúna til að takast á við þær áskoranir sem blasa við í síkviku háskólasamfélagi. Þjálfunin samanstendur m.a. af fyrirlestrum, erindum og vinnustofum auk þess sem þátttakendur deila hver með öðrum reynslu úr sínu starfumhverfi.
Ný stjórnendaþjálfun hófst í vikunni í Háskóla Íslands. Alls taka 34 stjórnendur frá sex háskólum þátt í þjálfuninni að þessu sinni en hún skiptist í fimm námskeið sem fara fram næsta árið. Auk þess að hittast í HÍ munu þátttakendurnir hittast í fjórum öðrum þátttökuháskólum á námstímabilinu.
Þema þjálfunarinnar að þessu sinni er „Sustainable worklife in Nordic universities“ en þar verður hlutverk stjórnenda í að skapa og viðhalda sjálfbæru starfsumhverfi í háskólum í brennidepli. Áhersla verður m.a. á fjölbreytileika og inngildingu, breytingastjórnun, leiðtogafærni og leiðir til að laða og halda í hæfileikafólk innan stjórnsýslu háskóla.
Hægt er að kynna sér stjórnendaþjálfunina nánar á vef NUAS.
Myndir Kristins Ingvarssonar frá námskeiðinu má sjá hér að neðan.