Rúnar leiðir breytingar á tæknifræðinámi
Fulltrúar Háskóla Íslands og Keilis undirrituðu á dögunum samkomulag um að Rúnar Unnþórsson, prófessor við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði og tölvunarfræðideild, taki tímabundið að sér starf forstöðumanns tæknifræðináms á vegum Háskóla Íslands og Keilis. Í því felst m.a. að undirbúa nýja námsleið fagháskólanáms í iðn- og tæknigreinum.
Háskóli Íslands er meðal hluthafa í Keili og tæknifræðinámið sem starfrækt er hjá Keili að Ásbrú heyrir undir Rafmagns- og tölvuverkfræðideild Háskóla Íslands. Nemendur í tæknifræði útskrifast með BS-gráðu í tæknifræði frá Háskóla Íslands.
Sverrir Guðmundsson lét nýverið af störfum sem forstöðumaður tæknifræðinámsins og fram undan eru breytingar á tæknifræðinni þar sem ætlunin er að setja á fót nýja námsleið fagháskólanáms í iðn- og tæknigreinum þar sem atvinnulíf og háskóli munu tengjast enn sterkari böndum. Jafnframt er ráðgert að gera námið aðgengilegra fyrir nemendur sem hyggjast stunda námið með starfi. Rúnar mun stýra þeirri vinnu sem forstöðumaður tæknifræðinnar hjá Keili ásamt sérstöku fagráði. Um er að ræða tímabundna ráðningu og mun Rúnar áfram vera í hlutastarfi sem prófessor í vélaverkfræði við Háskóla Íslands.
Samninginn um ráðningu Rúnars til Keilis undirrituðu Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Hjálmar Árnason, framkvæmdastjóri Keilis, ásamt þeim Rúnari og Sigurði Magnúsi Garðarssyni, forseta Verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands.