Rektor verðlaunaður fyrir menntunarframlag á sviði fjarkönnunar
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands og prófessor í rafmagns- og tölvuverkfræði, hlýtur verðlaun IEEE Geoscience and Remote Sensing Society (GRSS) fyrir framlag sitt til menntunar á sviði fjarkönnunar. Verðlaunin voru afhent í dag á opnunarathöfn árlegrar ráðstefnu GRSS. Ráðstefnan sem ævinlega er mjög fjölsótt er að þessu sinni rafræn með yfir 5.000 þáttakendum.
Verðlaunin sem um ræðir nefnast GRSS Education Award. Þau voru sett á laggirnar til að viðurkenna framúrskarandi framlag vísindamanna í fjarkönnun til menntunar á sviðinu, bæði með tilliti til nýsköpunar þekkingar og heildaráhrifa, m.a. þjálfunar rannsóknanema.
Jón Atli hefur kennt námskeið og haft marga doktors- og meistaranema á sviðinu, bæði við Háskóla Íslands og erlenda háskóla, en hann hefur átt í víðtæku alþjóðlegu samstarfi á sviði menntunar í fjarkönnun. Við Háskóla Íslands hafa níu doktorsnemar brautskráðst undir hans leiðsögn, margir í samstarfi við erlenda háskóla, en hann starfaði m.a. sem gestaprófessor við Háskólann í Trento á Ítalíu frá árunum 2001 til 2015 og kenndi þar mynsturgreiningu árlega og leiðbeindi framhaldsnemum. Jón Atli hefur verið í hópi fremstu vísindamanna heims á sviði fjarkönnunar en hún felst í því að taka stafrænar myndir úr flugvélum, drónum og gervitunglum og vinna úr þeim margs konar upplýsingar um yfirborð jarðarinnar. Eftir hann liggja meira en 400 fræðigreinar og bókarkaflar á sviði rafmagns- og tölvuverkfræði og mikið er vitnað til verka hans, reyndar svo mikið að hann er einn fárra Íslendinga sem komist hefur ár eftir ár á lista hins virta greiningarfyrirtækis Clarivate Analytics yfir áhrifamestu vísindamenn heims á ýmsum fræðasviðum. Við þetta má bæta að Háskóli Íslands er í 6. sæti yfir fremstu háskóla heims á sviði fjarkönnunar og í hópi þeirra 40 bestu á sviði rafmagns- og tölvuverkfræði samkvæmt hinum virta Shanghai-lista sem birtur var í sumar.
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, fékk sendan viðurkenningarskjöld í tengslum við verðlaunin þar sem fram kemur að þau séu veitt fyrir framúrarandi framlag til menntunar á sviði fjarkönnunar. MYND/Kristinn Ingvarsson
Jón Atli hefur enn fremur fengið fjölmargar viðurkenningar á alþjóðavettvangi og hér heima fyrir rannsóknir sínar. Hann er heiðursfélagi (Fellow) hjá tveimur alþjóðlegum fagfélögum: IEEE (2004) og SPIE (2013). Þá var hann á árunum 2003-2008 aðalritstjóri fræðitímaritsins IEEE Transactions on Geoscience and Remote Sensing og hefur setið í ritstjórnum margra alþjóðlegra fræðirita. Jón Atli var forseti IEEE Geoscience and Remote Sensing Society á árunum 2011 og 2012. Hann situr enn fremur í ritstjórnum margra fræðirita á sviði fjarkönnunar.
Hann hefur enn fremur verið mikilvirkur í nýsköpun og stofnaði meðal annars með Einari Stefánssyni, prófessor í augnlækningum, og fleirum sprotafyrirtækið Oxymap sem þróað hefur tækni til að mæla súrefnismettun í augnbotnum til að auðvelda greiningu á ýmiss konar augnsjúkdómum.
Í ávarpi sínu við móttöku verðlaunanna þakkaði Jón Atli GRSS fyrir þennan mikla heiður og lýsti því hversu mikilvægt starf félagsins væri m.a. varðandi tengslamyndun og faglega við að efla menntunarþáttinn á fræðasviðinu. Hann þakkaði einnig samstarfsaðilum sínum innan og utan Háskóla Íslands og öllum sínum nemendum fyrir þeirra mikilvæga framlag.
Hér að neðan má sjá upptöku af þakkarávarpi rektors.
Geoscience and Remote Sensing Society (GRSS) er alþjóðlegt félag á sviði fjarkönnunar sem heyrir undir Institute of Electrical and Electronics Engineers (IEEE), stærsta fagfélag rafmagns- og tölvuverkfræðinga í heiminum með yfir 400 þúsund félaga. GRSS hefur höfuðstöðvar í Bandaríkjunum en hefur víðtæka starfsemi um allan heim, gefur út mörg fræðirit og heldur ráðstefnur, m.a. hina árlegu ráðstefnu þar sem áðurnefnd verðlaun eru afhent en vegna kórónuveirufaraldursins var hún færð á netið.