Rannsaka lífsbaráttu borgarkríunnar
„Sjófuglavörp inni í borg eru afar sjaldséð fyrirbæri og það á sannarlega við um kríuvarpið í Vatnsmýrinni og við Reykjavíkurtjörn. Engar rannsóknir hafa verið gerðar á varplíffræði þessara borgarkría og er óþekkt hvaða takmörkunum þær eru háðar,“ segir Hrafnhildur Vala Friðriksdóttir, BS-nemi í líffræði, sem rannsakað hefur lífsbaráttu borgarkríunnar í sumar og kannað viðhorf bæði Reykvíkinga og gesta í borginni til þessa smáa en harðskeytta fugls.
Krían er sá farfugl sem á að baki lengsta ferðlagið þegar hún kemur hingað til lands til að verpa á vorin en vetrarstöðvar hennar eru sunnarlega á suðurhveli jarðar. Útreikningar hafa sýnt að elstu fuglar fljúga sem nemur þremur ferðum til tunglsins, slíkt er farflug kríunnar. Þessi tignarlegi fugl hefur verið mjög áberandi í friðlandinu í Vatnsmýri síðustu ár, ekki síst eftir átak Háskóla Íslands, Norræna hússins og Reykjavíkurborgar um endurheimt varp- og votlendis í mýrinni. Óvíða er fuglinn í jafnmiklu návígi við manninn og það heillar bæði Hrafnhildi og leiðbeinendur hennar sem vilja varpa nánara ljósi á þetta sambýli fugls og manns.
Hrafnhildur vinnur verkefnið með stuðningi Nýsköpunarsjóðs námsmanna og Reykjavíkurborgar og nýtur leiðsagnar þeirra Freydísar Vigfúsdóttur, dýravistfræðings og sérfræðings við Háskóla Íslands, Snorra Sigurðssonar, líffræðings og verkefnastjóra á deild náttúru og garða á umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar, og Katrínar Önnu Lund, prófessors við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands.
„Allflestar borgir hýsa fjölda fuglategunda, oftast söngfugla og dúfur í borgartrjám, endur, gæsir, svani á tjörnum borgargarða. Sjófuglar verpa hins vegar sjaldan í borgum enda búsvæði þeirra við sjó og þeir verpa því oftast á afskekktum eyjum eða við björg þar sem afrán er lítið og stutt í sjó til ætis. Sjófuglabyggðir í miðri borg eru afar sjaldséðar en kríuvarpið í Vatnsmýri setur sterkan svip á miðborgina á sumrin,“ segir Freydís sem hefur í sumar rannsakað kríuvarp víðar um landið.
Hún bendir jafnframt á að ef krían nái ekki í nægilegt æti hafi það áhrif á varpið og verði það að viðvarandi ástandi leiði það til þess að varpið hverfur. „Það hafa engar rannsóknir verið gerðar á varplíffræði borgarkría í Reykjavík og því er óþekkt hverjar helstu takmarkanir eru á varpinu m.t.t. fæðu og framleiðni, afránshættu og truflun eða röskun varplands, t.d. vegna ágengra plantna,“ segir Freydís enn fremur.
Hvaða hættur stafa að kríuvarpinu?
Markmið verkefnisins verður því að kanna hvaða hættur stafa að kríuvarpinu í Vatnsmýri og við Reykjavíkurtjörn og rannsaka varplíffræði fuglanna út frá varpárangri, fæðu og atferli.
Hrafnhildur hefur í sumar safnað gögnum í Vatnsmýrinni og í hólmanum í Þorfinnstjörn sem er í syðsta hluta Reykjavíkurtjarnar. „Við gerum bæði gróðurmælingar fyrir varp og undir lok varptímans og rannsókn á varplíffræði kríanna fer fram á varptíma,“ segir Freydís og Hrafnhildur bætir við: „Við munum kortleggja hreiðurstæði og fjölda eggja á hreiður og mæla álegutíma kría með svokölluðu flotprófi. Við munum svo merkja nokkur hreiður þannig að við getum fylgst með atferli kríanna úr fjarlægð eftir klaktíma. Á ungatímanum ætlum við að fylgjast með fæðuatferli og mæla tíðni fæðugjafa og greina tegund og stærð ætis með hjálp ljósmyndabúnaðar. Þannig fæst mynd af varplíffræðinni og því hvaða vægi vatnasvæði Vatnsmýrarinnar og tjarnarinnar hefur sem fæðuuppspretta á móti hafrænu æti,“ segir Hrafnhildur.
Hún mun jafnframt útbúa viðhorfskönnun undir leiðsögn Katrínar Önnu Lund en þar verður leitað svara við því hvers konar nágranni krían er í augum fólks en eins og flestir þekkja getur krían orðið ágeng telji hún varpsvæði sínu ógnað. Könnunin verður lögð fyrir gesti og gangandi við bæði Tjörnina og Vatnsmýrarsvæðið.
„Rannsóknin mun veita vísindasamfélaginu nýjar upplýsingar um líffræði borgarfugla en einnig geta borgaryfirvöld hagnýtt þær við skipulag og umsjón grænna svæða. Upplýsingarnar nýtast líka sem tæki til að meta gildi Vatnsmýrarinnar og Tjarnarinnar sem grænna svæða í borg og veita upplýsingar um hvernig best er að vernda varpland sem þetta og sjófuglavarp í borgarlandi. Auk þess verður þessari þekkingu miðlað til hópa barna sem boðið verður að kynna sér starfið. Þá munu niðurstöðurnar vera gagnlegar og áhugaverðar fyrir almenning og könnun á viðhorfi fólks til varpsins vera gagnleg kveikja fyrir frekari umræðu og aðgerðir er varða samlífi fólks og annarra lífvera,“ segja þær stöllur að endingu.