Ræða áhrif loftslagsbreytinga á listsýningu
Nemendur við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands flytja stutta fyrirlestra um hnattrænar loftslagsbreytingar og áhrif þeirra í kjallara Norræna hússins miðvikudaginn 21. október kl. 16-18. Fyrirlestrarnir tengjast sýningu í Norræna húsinu sem er samstarfsverkefni norrænna listamanna og vísindamanna.
Sýningin nefnist „Rauður snjór - þegar loftslaginu blæðir“ og var opnuð við hátíðlega athöfn 15. október síðastliðinn. Þema sýningarinnar, sem stendur út októbermánuð, eru loftslagsbreytingar og að henni kemur hópur norrænna listamanna í samstarfi við þau Þóru Ellen Þórhallsdóttur, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild, og Helga Björnsson, prófessor emeritus við Jarðvísindadeild, en þau hafa rannsakað áhrif loftslagsbreytinga í langan tíma.
List- og vísindamannahópurinn deilir áhyggjum af áhrifum loftslagsbreytinga á umhverfi og menningu á Norðurslóðum og bendir á að jöklar á norðurslóðum hopi hratt og nýjar og ágengar tegundir raski jafnvægi í gróðurfari og dýralífi og ógna líka lífríkinu í sjónum. Bendir hópurinn á að við sem búum í norðrinu verðum að takast á við þessi málefni og segja öllum heiminum frá því sem er að gerast á heimskautasvæðinu ef það á að vera hægt að snúa þróuninni við og forðast algjört hrun. „Þess vegna höfum við í hópnum Rauður snjór sett saman nýtt verkefni sem felur í sér myndlistarsýningar, vinnustofur, listflutning og málstofur þar sem við leitumst við að efla umræðuna um loftslagsbreytingar og afleiðingar þeirra fyrir líf okkar sem búum í Norður-Atlantshafi,” segir hópurinn á heimasíðu Norræna hússins.
Í tengslum við sýninguna flytja nemendur við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands röð stuttra fyrirlestra um hnattrænar loftslagsbreytingar og áhrif þeirra miðvikudaginn 21. október en fyrirlestrarnir byggjast á verkefnum sem þeir hafa unnið. Fjallað verður um vísindalegan grundvöll loftslagsbreytinga og áhrif þeirra á líffræðilega fjölbreytni og þurr svæði jarðar, á hækkun sjávarborðs og súrnun sjávar og loks verður rætt um loftslagsbreytingar og hlutverk frjálsra félagasamtaka.
Fyrirlestrarnir verða kl. 16-18 í kjallara Norræna hússins og er gestum boðið að skoða sýninguna um leið.
Sýningin hefur áður farið til Nuuk á Grænlandi, Kaupmannahafnar í Danmörku og
verður hringnum lokað með sýningu í Þórshöfn í Færeyjum 2016.