Skip to main content
17. maí 2018

Páll Melsted hlýtur Hvatningarverðlaun Vísinda- og tækniráðs 2018

Hvatningarverðlaun Vísinda- og tækniráðs voru afhent við hátíðlega athöfn á Rannsóknaþingi Rannís í dag. Dr. Páll Melsted, prófessor við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild Háskóla Íslands, hlaut viðurkenninguna að þessu sinni. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vísinda- og tækniráðs, afhenti Páli verðlaunin.

Í ræðu sinni sagði ráðherra: "Páll hefur birt fjölda vísindagreina og leiðbeint nemendum í meistara- og doktorsnámi með góðum árangri. Hann hefur gegnt starfi námsbrautarformanns í tölvunarfræði við Háskóla Íslands þar sem hann hefur innleitt ýmsar nýjungar í kennslu. Páll er skarpur og skapandi hugsuður, knúinn miklum drifkrafti og áræðni og ljóst er að lífupplýsingafræðin – sem er ört vaxandi þverfagleg fræðigrein – þarf á frumkvöðlum eins og Páli Melsted að halda."

Páll Melsted er fæddur árið 1980. Hann lauk BS-gráðu í stærðfræði með ágætiseinkunn frá Háskóla Íslands árið 2003 og doktorsprófi frá stærðfræðideild Carnegie Mellon háskóla í Pittsburgh árið 2009 á sviði reiknirita, fléttufræði og bestunar. Eftir doktorsnám starfaði hann í tvö ár sem nýdoktor við mannerfðafræðideild Chicago-háskóla. Auk þess að sinna prófessorsstöðu við HÍ starfar Páll nú einnig sem vísindamaður hjá Íslenskri erfðagreiningu. 

Vísindalegt framlag Páls hefur aðallega legið á sviði lífupplýsingafræði. Hann hefur þróað stærðfræðilegar aðferðir sem nýtast til að greina það gríðarlega magn gagna sem aflað hefur verið með nýjum greiningaraðferðum í erfðafræði á undanförnum árum. Sérstaklega hefur Páll beitt sér fyrir því að þróa aðferðir sem gera rannsakendum kleift að framkvæma flókna útreikninga með venjulegum tölvum í stað þess að treysta á aðgang að ofurtölvum. Ætla má að nokkur hundruð rannsóknahópa á þessu sviði um allan heim nýti sér nú þegar hugbúnað sem hann hefur þróað. Aðferðir Páls má m.a. nýta til að meta RNA tjáningu og óvissu í henni mun hraðar en fyrri aðferðir, en hún er notuð í æ ríkari mæli í rannsóknum í frumulíffræði og læknisfræði. Páll hefur ennfremur unnið að þróun skilvirkra aðferða til að finna breytileika í erfðamengjum.

Páll hefur tekið þátt í samstarfi ýmissa rannsóknahópa hérlendis og erlendis, þar á meðal við CalTech og Berkeley-háskóla í Bandaríkjunum, Íslenska erfðagreiningu, Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri. Samstarfið snýr einkum að frekari þróun stærðfræðilegra aðferða og að greiningum á erfðamengi mannsins og annarra lífvera. Að auki hefur Páll sett upp öflugt tölvuver með reiknikjarna fyrir lífupplýsingafræði sem kallast Mímir, sem er ómetanlegt gagnaver með forritum sem gera íslenskum vísindamönnum kleift að stunda rannsóknir á gríðarlega umfangsmiklum lífvísindagögnum.

Hvatningarverðlaun Vísinda- og tækniráðs eru veitt vísindamanni sem snemma á ferlinum þykir hafa skarað framúr og skapað væntingar um framlag í vísindastarfi er treysti stoðir mannlífs á Íslandi. Verðlaunin hafa verið veitt frá árinu 1987, í fyrsta sinn á 50 ára afmæli atvinnudeildar Háskóla Íslands. Markmiðið með veitingu Hvatningarverðlaunanna er að hvetja vísindamenn til dáða og vekja athygli almennings á gildi rannsókna og starfi vísindamanna.
 

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vísinda- og tækniráðs, afhenti Páli Melsted verðlaunin. MYND/Kristinn Ingvarsson