Ólympíuliðin í raungreinum undirbúa sig í HÍ
Ólympíulið Íslands í eðlisfræði, efnafræði og stærðfræði búa sig þessa dagana af kappi fyrir þátttöku í bæði Norðurlanda- og ólympíumótum sem að þessu sinni fara ýmist fram á netinu, utan landssteinanna eða hvort tveggja. Liðin nýta m.a. húsakynni Háskóla Íslands á undirbúningstímabilinu fyrir mótin og njóta m.a. leiðsagnar starfsfólks og nemenda við Háskóla Íslands.
Liðin skipa þeir nemendur sem standa sig best í landskeppnum framhaldsskólanna í raungreinum sem fram fram á hverjum vetri. Hefð hefur skapast fyrir því að liðin kíki í heimsókn á rektorsskrifstofu á æfingatímabilinu fyrir keppnir sumarsins og engin breyting var á því þetta árið. Þar ræddu liðsmenn og þjálfarar við Jón Atla Benediktsson, rektor HÍ, Sigurð Magnús Garðarsson, forseta Verkfræði- og náttúruvísindasviðs HÍ, og Sæunni Stefánsdóttur, sérfræðing á skrifstofu rektors, um æfingarnar og mótin fram undan. Mótin markast bæði af innrás Rússa í Úkraínu og því að ekki hefur tekist að ráða niðurlögum kórónuveirufaraldursins í heiminum.
Ólympíuliðið í eðlisfræði skipa þau Hildur Gunnarsdóttir, Hallgrímur Haraldsson, Einar Andri Víðisson, Egill Grétar Andrason og Kristín Ingibjörg Magnúsdóttir. Með þeim í heimsókninni á rektorsskrifstofu voru þrír kennarar og fræðimenn sem koma að þjálfun liðsins, þau Viðar Ágústsson, Unnar Bjarni Arnalds og Ingibjörg Haraldsdóttir en auk þeirra koma þeir Matthias Baldursson Harksen og Freyr Hlynsson að þjálfuninni.
Ólympíumótið í eðlisfræði átti að fara fram í Hvíta-Rússlandi eða Belarús en í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu var ákveðið að aflýsa mótinu og meina Rússum og Hvít-Rússum þátttöku í ár. Þess í stað munu Svisslendingar standa að nokkurs konar blendingsnetmóti en í því felst að þátttökuþjóðir í mótinu munu hittast í litlum hópum í ákveðnum löndum og standa saman að netólympíumóti 10.-18. júlí. Íslenska liðið mun fara til Sæby í Danmörku þar sem það mun taka þátt í leikunum ásamt Svisslendingum, Frökkum, Belgum, Lúxemborgurum, Svíum og Austurríkismönnum.
Síðasta landsliðið í raungreinum til að heimsækja rektorsskrifstofu þetta árið var ólympíuliðið í efnafræði. Liðið nýtir þessa dagana húsakynni HÍ til stífra æfinga fyrir mót sumarsins. Jöfn kynjaskipting er í liðinu en það skipa þau Iðunn Björg Arnaldsdóttir, Kristján Sölvi Örnólfsson, Freyr Víkingur Einarsson og Embla Nótt Pétursdóttir. Tveir þjálfarar sjá um að undirbúa liðið fyrir mót sumarsins, þau Katrín Lilja Sigurðardóttir og Már Björgvinsson.
Ólympíuliðið í stærðfræði er skipað þeim framhaldsskólanemum sem urðu í efstu sætum í Stærðfræðikeppni framhaldsskólanna í vetur. Það eru þau Benedikt Vilji Magnússon, Kirill Zolotuskiy, Kristján Dagur Jónsson, Ragna María Sverrisdóttir, Sverrir Hákonarson og Viktor Már Guðmundsson. Þjálfarar liðsins eru þau Sigurður Jens Albertsson, Álfheiður Edda Sigurðardóttir og Elvar Wang Atlason og þá verður Marteinn Þór Harðarson dómnefndarfulltrúi á ólympíumóti þessa árs. Ólympíumótið í stærðfræði fer fram í Ósló helgina 8.-10. júlí en vikuna á undan keppninni verður liðið í æfingabúðum með hinum norrænu liðunum í bænum Sorø í Danmörku.
Síðasta landsliðið í raungreinum til að heimsækja rektorsskrifstofu þetta árið var ólympíuliðið í efnafræði. Liðið nýtir þessa dagana húsakynni HÍ til stífra æfinga fyrir mót sumarsins. Jöfn kynjaskipting er í liðinu en það skipa þau Iðunn Björg Arnaldsdóttir, Kristján Sölvi Örnólfsson, Freyr Víkingur Einarsson og Embla Nótt Pétursdóttir. Tveir þjálfarar sjá um að undirbúa liðið fyrir mót sumarsins, þau Katrín Lilja Sigurðardóttir og Már Björgvinsson. MYND/Kristinn Ingvarsson
Ólympíuliðið í efnafræði tekur bæði þátt í Norrænu efnafræðikeppninni, sem fram fer hér á landi 6.-9. júlí, og aþjóðlegu ólympíukeppninni, sem er fjarkeppni haldin frá Kína vegna áhrifa kórónuveirufaraldursins. Mótið fer fram dagana 10.-20. júlí.
Háskóli Íslands óskar liðunum góðs gengis á mótum sumarsins.