Ólympíuliðin í raungreinum æfa í Háskóla Íslands
Ólympíulið Íslands í efnafræði, eðlisfræði, líffræði og stærðfræði hafa undanfarnar vikur undirbúið sig fyrir þátttöku í Evrópu- og ólympíumótum í greinunum sem fara fram í sumar. Liðin hafa líkt og fyrri ár nýtt aðstöðu í Háskóla Íslands og heimsóttu rektor Háskóla Íslands í Aðalbyggingu í síðustu viku. Líkt og í fyrra setur kórónuveirufaraldurinn svip sinn á mótin og fara keppnir ársins því flestar fram á netinu.
Ólympíulið Íslands í umræddum greinum skipa þeir nemendur sem standa sig best í landskeppnum framhaldsskólanna sem fram fram á hverjum vetri. Löng hefð er fyrir því að landsliðin búi sig undir alþjóðlegar keppnir í húsakynnum Háskólans og njóta þau m.a. leiðsagnar kennara og nemenda við HÍ á undirbúningstímabilinu.
Ólympíuliðið í líffræði skipa þau Kári Hlynsson, Katrín María Ólafsdóttir, Ragnhildur Sara Bergsdóttir og Viktor Logi Þórisson. Þau hafa æft af kappi undir leiðsögn Ólafs Patricks Ólafssonar, starfsmanns Háskóla Íslands, í Öskju – náttúrufræðahúsi skólans, fyrir ólympíumótið í líffræði. Mótið fer fram rafrænt dagana 18.-23. júlí.
Fjögur skipa ólympíuliðið í efnafræði en það eru þau Dagur Björn Benediktsson, Telma Jeanne Bonthonneau, Ísak Hugi Einarsson og Daníel Heiðar Jack. Þau taka þátt í Norrænu efnafræðikeppninni sem haldin verður á Íslandi dagana 19.-23. júlí og 53. Alþjóðlegu Ólympíukeppninni í efnafræði sem haldin verður gegnum netið frá Japan dagana 24. júlí-2. ágúst. Katrín Lilja Sigurðardóttir, aðjunkt í efnafræði við Háskóla Íslands, þjálfar liðið ásamt Má Björgvinssyni en liðið hefur haft aðstöðu í VR-II.
Ólympíuliðið í stærðfræði er það eina sem leggur land undi fót í sumar en það er skipað þeim Selmu Rebekku Kattoll, Óðni Andrasyni, Arnari Ingasyni, Benedikt Vilja Magnússyni, Viktori Mar og Einari Andra Víðisssyni. Liðið, sem æft hefur í VR-II, heldur til Sorö í Danmörku 12. júlí þar sem það tekur þátt í æfingabúðum ásamt ólympíuliðum hinna norrænu ríkjanna í stærðfræði. Að æfingabúðunum loknum munu öll norrænu liðin taka þátt í alþjóðlega ólympíumótinu í stærðfræði sem fara átti fram í Sankti Pétursborg í Rússlandi en verður á netinu 19. og 20. júlí. Þjálfari stærðfræðiliðsins er Álfheiður Edda Sigurðardóttir, doktorsnemi við Háskóla Íslands, en stór hópur kemur að undirbúningi liðsins auk hennar.
Fimm keppendur taka þátt í Evrópukeppninni í eðlisfræði sem verður helgina 19.-20. júní og einnig í Ólympíuleikunum í eðlisfræði sem haldnir eru dagana 18.-24.júlí. Það eru þau Jón Valur Björnsson, Hildur Gunnarsdóttir, Hilmir Vilberg Arnarsson, Teresa Ann Frigge og Oliver Sanches. Þau njóta stuðnings þjálfara síns, Matthiasar B. Harksen, auk eðlisfræðinga frá Háskóla Íslands og Háskólanum í Reykjavík og stúdenta sem hafa reynslu af fyrri ólympíumótum. Bæði mótin fara fram á netinu.
Háskóli Íslands óskar liðunum góðs gengis á mótum sumarsins.