Ólympíulið í raungreinum æfa í HÍ
Ólympíulið í hinum ólíku greinum raunvísinda hafa æft sig af kappi á háskólasvæðinu síðustu vikur en öll undirbúa þau sig fyrir Ólympíumót sem fara fram víða um heim í júlímánuði. Hóparnir hittu forystumenn Háskóla Íslands á dögunum.
Ólympíukeppnin í líffræði fer fram í Teheran í Íran dagana 15. til 22. júlí. Lið Íslands, sem tekur þátt í keppninni, er skipað fjórum nemendum úr Menntaskólanum í Reykjavík, þeim Árna Bjarnsteinssyni, Gizuri Sigfússyni, Heru Gautadóttur og Erni Steinari Sigurbjörnssyni en þau voru valin í kjölfar landskeppni í líffræði og æfingabúða á vegum Samlífs - samtaka líffræðikennara. Hópurinn hefur æft í Öskju síðustu daga og vikur, m.a. undir leiðsögn doktorsnema og kennara í líffræði við Háskóla Íslands. Framhaldsskólakennararnir Jóhanna Arnórsdóttir úr MR og Karen Pálsdóttir úr Fjölbrautaskólanum í Breiðholti hafa einnig komið að þjálfuninni og fylgja liðinu í keppnina.
Ólympíulið Íslands í stærðfræði hefur haldið sig í VR II síðasta mánuðinn við stífar æfingar m.a. undir leiðsögn fyrrverandi Ólympíufara og starfsmanna Háskólans. Hópurinn heldur út 1. júlí til Danmerkur í æfingabúðir með liðum frá hinum norrænu ríkjunum en þaðan heldur hann svo til Rúmeníu 7. júlí þar sem Ólympíumótið í stærðfræði fer fram þetta árið. Ólympíuliðið skipa sex núverandi og fyrrverandi framhaldsskólanemar, þeir Andri Snær Axelsson, Hrólfur Eyjólfsson, Elvar Wang Atlason, Breki Pálsson og Ari Páll Agnarsson, allir úr Menntaskólanum í Reykjavík, og Tómas Ingi Hrólfsson úr Menntaskólanum við Hamrahlíð. Þess má geta að Elvar er að fara að taka þátt í sínu fjórða Ólympíumóti í stærðfræði og hann var meðal þeirra sem tóku við styrkjum úr Afreks- og hvatningarsjóði stúdenta Háskóla Íslands á dögunum. Fararstjóri liðsins er Jóhanna Eggertsdóttir, kennari í MR, og liðssjóri Marteinn Harðarson.
Fjórir framhaldsskólanemar skipa Ólympíuliðið í efnafræði, þeir Alec Elías Sigurðarson úr MH, MR-ingarnir Ægir Örn Kristjánsson og Eldar Máni Gíslason og Árni Tómas Sveinbjörnsson úr Fjölbrautaskólanum í Garðabæ. Katrín Lilja Sigurðardóttir, aðjunkt í efnafræði við Háskóla Íslands, og Már Björgvinsson, efnafræðikennari í Menntaskólanum í Reykjavík, bera hitann og þungann af þjálfun liðsins og fara með því út á Ólympíumótið sem er nú haldið í 50. sinn. Þetta árið fer hún fram bæði í Slóvakíu og Tékklandi en þar var keppnin haldin í fyrsta sinn fyrir 50 árum. Tómas Arnar Guðmundsson, nemi í efnafræði við Háskóla Íslands, mun einnig fylgja liðinu sem aðstoðarþjálfari á Norrænu efnafræðikeppnina sem verður haldin í Noregi í aðdraganda Ólympíumótsins. Efnafræðilandsliðið mun æfa VR I og VR II fram í miðjan júlímánuð áður en það heldur utan.
Fjórir piltar og ein stúlka skipa Ólympíuliðið í eðlisfræði. Það eru þau Þorsteinn Elí Gíslason, sem var að útskrifast úr Verzlunarskóla Íslands, Kristján Ari Tómasson, sem útskrifaðist úr Menntaskólanum í Reykjavík í vor, og þau Þorsteinn Ívar Albertsson, Vigdís Gunnarsdóttir og Freyr Hlynsson sem öll stunda nám í MR. Æfingar hópsins munu standa fram til 19. júlí í VR I og VR II en þá heldur liðið á Ólympíumótið í eðlisfræði sem verður í Lissabon í Portúgal dagana 21.-29. júlí. Fararstjórar eru að þessu sinni tveir framhaldsskólakennarar: Ragnheiður Guðmundsdóttir úr MR og Ingibjörg Haraldsdóttir úr MK. Ingibjörg og Viðar Ágústsson, kennari í Flensborgarskóla, hafa skipulagt ferðina og þjálfunina og Ari Ólafsson, dósent í eðlisifræði við Háskóla Íslands, hefur skipulagt verklega þjálfun. Auk þeirra kemur hópur kennara við HÍ að kennslunni og þá dvelja nemendurnir eina viku við æfingar í Háskólanum í Reykjavík á undirbúningstímanum.
Háskóli Íslands óskar Ólympíuliðunum góðs gengis í undirbúningi Ólympíumótanna og á mótunum sjálfum.