Nýsköpunarverkefni kvenna verðlaunuð í HÍ-AWE-hraðlinum
Frumkvöðlaverkefni sem snúa að umhverfissjónarmiðum, samgöngum, sjálfbærri ræktun, aðstoð við listamenn, umhverfisvæna verslun og veflausn sem snýr að forvörnum gegn ofbeldi urðu í efstu sætunum í nýsköpunarhraðli fyrir konur sem Háskóli Íslands stendur að í samstarfi við bandaríska sendiráðið á Íslandi. Hraðlinum lauk formlega í dag og voru vegleg peningaverðlaun að verðmæti 2,2 milljóna króna veitt vinningshöfunum.
Verðlaunin geta konurnar t.a.m. nýtt til að koma vöru sinni eða þjónustu á markað eða taka sín fyrstu skref á þá leið. Í heild bárust hraðlinum umsóknir um 114 viðskiptahugmyndir en 37 urðu fyrir valinu. Konurnar hafa notið leiðsagnar mentoranna Fidu Abu Libdeh, forstjóra og stofnanda GeoSilica, Söndru Mjallar Jónsdóttur Buch, framkvæmdastjóra Raunvísindastofnunar Háskóla Íslands og Hólmfríðar Sveinsdóttur, stofnanda og framkvæmdastjóra Mergur Ráðgjöf. Að auki hafa gesta leiðbeinendur víðsvegar að úr atvinnulífinu verið með fyrirlestra og aðstoðað við hin ýmsu mál sem huga þarf að til að koma hugmynd áfram, stofnun fyrirtækja og markaðssetningu svo eitthvað sé nefnt. Þátttakendur luku einning Dreambuilder, vefnámskeiði á vegum Arizona State University.
Útskrift og verðlaunaafhending fór fram í Hátíðasal Háskóla Íslands að viðstöddum háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, Michelle Yerkin, starfandi sendiherra Bandaríkjanna og Chargé d´Affaires bandaríska sendiráðsins á Íslandi, og Jóni Atla Benediktssyni, rektor Háskóla Íslands.
Eins og fyrr greinir voru ákveðnum verkefnum veitt verðlaun. Verðlaunum var skipt upp eftir því hvort verkefnið væri einstaklingsverkefni eða teymisverkefni og að auki voru veitt verðlaun fyrir bestu lyftukynninguna í formi myndbands.
Fyrstu verðlaun í einstaklingsflokki hlaut viðskiptahugmyndin Paladino sem Berglind Baldursdóttir stendur að baki og fékk hún 500.000 krónur í verðlaun. Hugmyndin gengur út á að þróa hugbúnað sem heldur utan um vottun á bakgrunni fólks sem vill vinna með börnum og skjólstæðingum í viðkvæmum hópum.
Fyrstu verðlaun í teymisflokki að upphæð 500.000 krónur hlaut viðskiptahugmyndin On to something. Að verkefninu standa Sara Jónsdóttir og María Kristín Jónsdóttir. Viðskiptahugmyndin er alþjóðlegt rafrænt markaðstorg og þekkingarsamfélag sem setur afgangsefni í nýtt samhengi. On to Something skapar opinn markað fyrir afgangsefni fagaðila svo eigendur þeirra geta fundið þeim betri farveg, minnkað losun og mögulega sparað sér kostnað og/eða fá tekjur á móti. On to Something hlaut einnig verðlaun fyrir bestu lyftukynninguna að verðmæti 200.000 krónur.
Önnur verðlaun í einstaklingsflokki hlaut viðskiptahugmyndin Isponica að verðmæti 300.000 krónur. Amber Christina Monroe stendur að baki hugmyndinni en Isponica er gróðrarstöð fyrir sprotagrænmeti þar sem afgangsvatn frá fiskikörum er notað til að rækta grænmeti í hillum.
Önnur verðlaun í teymisflokki hlaut viðskiptahugmyndin Ferðaflækjan sem Svanhildur Jónsdóttir og Katrín Halldórsdóttir standa að. Sýn þeirra er að skapa vettvang með fræðslu um samgöngur, sem er aðgengileg. Því verður komið á framfæri með litlum fróðleikskornum og ráðum um vistvæna ferðamáta, sem byggir á sérfræðiþekkingu.
Þriðju verðlaun í einstaklingsflokki hlaut viðskiptahugmyndin Gracelandic og hlaut hún verðlaun að verðmæti 200.000 krónur. Að baki Gracelandic stendur Grace Achieng og snýr hugmyndin að sjálfbærni í fata- og tískugeiranum.
Þriðju verðlaun í teymisflokki hlaut viðskiptahugmyndin WAM (Women Art Marketeers). Að baki WAM standa Michelle Bird og Birna Sigurbjörnsdóttir og hlaut verkefnið 200.000 krónur í verðlaun. WAM er markaðstorg fyrir skapandi konur þar sem listakonum er m.a. kennd listin að markaðssetja sig og selja vörur sínar.
Í dómnefnd einstaklingsverkefna sátu: Helga Valfells, eigandi Crowberry Capital sem var einnig formaður dómnefndar, Sigríður Bylgja Sigurjónsdóttir, fulltrúi FKA í dómnefnd og stofnandi Tré lífsins og Lisa Franco, fulltrúi W.O.M.E.N. Í dómnefnd teymisverkefna sátu Þórður Magnússon stjórnarformaður Eyrir Invest sem jafnframt var formaður dómnefndar, Svala Guðmundsdóttir, fulltrúi HÍ í dómnefnd og prófessor Viðskiptadeildar HÍ og Jóhanna Jafetsdóttir, fulltrúi FKA í dómnefnd og stjórnandi hjá Össur. Í dómnefnd lyftukynningar sátu: Liv Bergþórsdóttir, formaður dómnefndar og forstjóri ORF líftækni, Þórarinn Hjálmarsson, markaðsstjóri Félagsvísindasviðs HÍ og fulltrúi HÍ í dómnefnd og Ágústa Ýr Þorbergsdóttir fulltrúi FKA í dómnefnd og framkvæmdastjóri Navigo.
Háskóli Íslands óskar öllum þátttakendum í hraðlinum hjartanlega til hamingju með árangurinn og góðs gengis í áframhaldandi þróun á glæsilegum viðskiptahugmyndum. Aldrei hefur verið mikilvægara en nú að efla nýsköpun í íslensku efnahagslífi og að sama skapi auka hlut kvenna á þeim vettvangi. Með hraðlinum vill Háskóli Íslands stuðla að því en þess má geta að gert er ráð fyrir að hann verði haldinn aftur að ári liðnu með nýjum hópi kvenna.
Háskóli Íslands stendur fyrir AWE-hraðalinum í samvinnu við Bandaríska sendiráðið en AWE-verkefnið er í boði í yfir 50 löndum víða um heim á vegum bandarískra stjórnvalda. Markmið hans er að styðja konur í að þróa áfram viðskiptahugmyndir sínar og fyrirtæki og auka hlut þeirra innan frumkvöðla- og nýsköpunargeirans. Ísland er fyrst norrænu ríkjanna til að taka þátt í verkefninu. Aðrir samstarfsaðilar hraðalsins eru Félag kvenna í atvinnlífinu (FKA) og Samtök kvenna af erlendum uppruna (W.O.M.E.N).