Nemendur í Háskóla Íslands standa fyrir alþjóðlegu hakkaþoni
Nemendur í iðnaðarverkfræði og tölvunarfræði við Háskóla Íslands standa fyrir hakkaþoni helgina 2.-3. febrúar næstkomandi sem opið verður bæði innlendum og erlendum háskólanemum. Þetta er fyrsta hakkaþonið hér á landi sem er skipulagt af nemendum fyrir nemendur.
Viðburðurinn sjálfur heitir Reboot Hack og er hluti af alþjóðlegu móti hakkaþona sem nefnist Major League Hacking. Hakkaþonið er nokkurs konar uppfinningamaraþon eða blanda af forritunar- og nýsköpunarkeppni þar sem þátttakendur fá rými til þess að læra, hanna, byggja og skapa.
Nemendur keppa saman í hópum og vinna í sólarhring að hugmynd eða tæknilausn algjörlega frá grunni. Afurðin getur verið í formi vefsíðu, smáforrits, smátækis eða hvernig tækni sem er, ímyndunaraflið fær að ráða ríkjum ásamt tiltækum hjálpartólum.
Opnað hefur verið fyrir skráningar til þátttöku og áætlað er að þátttakendur verði um 100 talsins og komi frá fjölmörgum löndum.
Sjálft hakkaþonið fer fram á Háskólatorgi Háskóla Íslands en Verkfræði- og náttúruvísindasvið Háskóla Íslands styður við bakið á skipuleggjendum viðburðarins, meðal annars með því að útvega húsnæði, útbúa auglýsingaefni og svæði fyrir heimasíðu hakkaþonsins.
Meðfylgjandi mynd var tekin þegar fulltrúar Reboot Hack og Verkfræði- og náttúruvísindasviðs undirrituðu samstarfssamning um viðburðinn.
Nánari upplýsingar um Reboot hack og skráningarsíðu má finna á www.reboot.hi.is