Meistaranemi hlýtur rannsóknarstyrk
Guðmundur Örn Sigurðsson hlaut rannsóknarstyrk frá Háskólafélagi Suðurlands þann 29. janúar síðastliðinn fyrir meistaraverkefni sitt í umhverfis-og byggingarverkfræði við Háskóla Íslands. Forseti Íslands afhenti styrkinn við hátíðlega athöfn í Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi.
Verkefni Guðmundar nefnist „Jarðskjálftagreining og hönnun á vindmyllum og vindmyllugarði á Suðurlandi“. Verkefnið fjallar um hönnun vindmylluturna á Suðurlandi út frá mögulegum jarðhræringum. Þar rannsakar Guðmundur áhrif jarðhræringa á Suðurlandi á hugsanlega uppbyggingu vindmyllugarðs á svæðinu. Verkefninu er ætlað að skilgreina virkni vindmylla og þróa út frá því örugg og áreiðanleg hönnunarlíkön slíkra mylla.
Leiðbeinandi verkefnisins er Dr. Rajesh Rupakhety, dósent við Umhverfis-og byggingarverkfræðideild Háskóla Íslands, en verkefnið er unnið í samvinnu við Rannsóknarmiðstöð Háskóla Íslands í jarðskjálftaverkfræði.