Lýkur doktorsprófi frá HÍ fyrstur heyrnarlausra
Dúntekja hér á landi virðist hafa lítil áhrif á afkomu æðarkollna og getur því talist vistvæn. Þetta sýna niðurstöður rannsóknar Þórðar Arnar Kristjánssonar sem brautskráðist í dag, 2. september, með doktorsgráðu í líffræði frá Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands. Þórður er fyrsti heyrnarlausi einstaklingurinn sem lýkur doktorsprófi frá skólanum.
Æðarkollan hefur verið Þórði hugleikin í rannsóknum hans en hann lauk BS-gráðu í líffræði frá Háskóla Íslands árið 2005 og hlaut meistaranafnbót frá skólanum árið 2008. Í meistaraverkefninu skoðaði hann áhrif dúntekju á hita, hegðun og varpárangur æðarfugla og var doktorsrannsókn hans framhald á þeim rannsóknum. Heiti doktorsritgerðarinnar er „Varpvistfræði æðarfugls (Somateria mollissima) við Breiðafjörð (Breeding ecology of the Common Eider (Somateria mollissima) in Breiðafjörður, West Iceland)“ en rannsóknina vann Þórður við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Snæfellsnesi undir leiðsögn Jóns Einars Jónssonar, forstöðumanns setursins.
Í doktorsrannsókninni skoðaði Þórður þætti sem haft geta áhrif á varp æðarfugla við Breiðafjörð en það er mikilvægasta búsvæði fuglsins á Íslandi og hefur æðardúnn verið nýttur þar öldum saman. Þórður rannsakaði m.a. hegðun kollna í þéttu varpi, áhrif dúntekju á orkubúskap fuglanna, sníkjudýr í hreiðrum og hvort fæða fuglanna á varptíma væri breytileg á mismunandi tímaskeiðum og milli kynja.
Rannsóknarniðurstöður sýna m.a. að kollur sinna hreiðrum hver annarrar í þéttu varpi og geta jafnvel átt egg í fleiri en einu hreiðri í sama varpi. Þessi samvinna fuglanna í þétta varpinu gæti verið vegna mikils þéttleika dúnflóa í hreiðrunum, æðarkollurnar geta því farið oftar af hreiðri til að snyrta sig en hafa þá staðgöngukollur til að annast hreiðrin á meðan. Í strjálu æðarvarpi geta æðarkollur hins vegar skipt um hreiður milli ára ef mikið er um dúnflær.
Þá leiddi rannsóknin þá nýju vitneskju í ljós að aðalfæða fuglanna á varptímanum er flekkunökkvi sem er lindýr skylt kuðungum og samlokum. Enn fremur sýna niðurstöður að æðarkollur sem hafa byggt upp góðan fituforða fyrir álegu geta tekist á við bæði dúntekju og aukaegg í hreiðri án þess að það hafi áhrif á afkomu þeirra. Því kemst Þórður að því að áhrif dúntekju á fuglana séu óveruleg og hún teljist því vistvæn hvað kollurnar sjálfar varðar.
Sem fyrr segir er Þórður brautryðjandi í doktorsnámi því hann er fyrstur heyrnarlausra til þess að ljúka doktorsprófi frá Háskóla Íslands. Við vörnina voru bæði táknmáls- og rittúlkur til þess að styðja við samskipti Þórðar og andmælenda við vörnina.