Leiðir UNESCO-umsókn fyrir grænlensku landstjórnina
Orri Vésteinsson, prófessor í fornleifafræði við Sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands, hefur um árabil rannsakað norrænar minjar á Suður-Grænlandi, og er aðalhöfundur umsóknar Grænlands og Danmerkur um að fá fimm svæði í Eystribyggð skráð á heimsminjaskrá UNESCO, menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Það eru Þjóðminjasafn Grænlands og sveitarfélagið Kujalleq sem standa að umsókninni í samvinnu við danska menningarmálaráðuneytið.
Orri Vésteinsson segir að Grænlendingar vilji styrkja alþjóðlegt vísindasamstarf og fjölga þeim sem fást við rannsóknir á sögu og náttúru landsins. Íslenskir fornleifafræðingar hafi mikið að sækja til Grænlands og mikið fram að færa um norrænu minjarnar þar enda séu þær af sama toga og íslenskar minjar. Meðal annars þess vegna hafi íslenskir fornleifafræðingar verið fengnir til liðs við að skrifa umsóknina til UNESCO. Gert er ráð fyrir að UNESCO taki ákvörðun um skráningu Eystribyggðar á heimsminjaskrána á næsta ári.
Hér að neðan er hægt að hlusta á viðtal við Orra um rannsóknir hans á Grænlandi og stöðu fornleifafræðinnar. Einnig er rætt við Orra um rannsóknirnar í Tímariti Háskóla Íslands sem kemur út 20. febrúar.