Komdu með HÍ og FÍ í Gróttu á sunnudag
Grótta er sannkölluð perla í borgarlandinu og á sunnudag bjóða Háskóli Íslands og Ferðafélag barnanna (FÍ) í fjöruferð í nágrenni vitans. Fjaran í Gróttu er afar skemmtileg því hún er bæði skjólsöm með breiðum sandflákum þegar fjarar út og brim hefur þar líka mikil áhrif. Þarna er því einstakt lífríki og gaman að snúa við steinum og skoða í pollana.
Reikna má með fjölda farfugla á sunnudaginn í fjörunni við Gróttu en þeir hópast nú heim. Mildari dagar undanfarið hafa einfaldað þeim flugið á varpstöðvarnar. Vaðfuglar sækjast eftir ætinu í fjörunni og líffræðingar frá Háskóla Íslands munu benda fólki á fugla, marflær og fjölmargt annað sem leynist í fjörunni. Þar fer fremstur í flokki Gísli Már Gíslason, prófessor emeritus við HÍ sem hefur stundað rannsóknir á lífríki víða um heiminn og ekki síst á áhrifum loftslagsbreytinga. Með honum verða nemendur í líffræði í HÍ ásamt kennara sínum, Ólafi Patrick Ólafssyni úr HÍ, sem hefur mikla reynslu af miðlun til barna og ungmenna um lífríkið.
Í fjöruferðinni í Gróttu er sum sé ætlunin að skoða ýmsar lífverur fjörunnar, grúska og leita að kröbbum og öðrum smádýrum en líka að skoða plönturnar. Þetta er nánast síðasta tækifæri þessa vors að fara út í Gróttu því henni er lokað fyrir allri umferð á varptímanum, frá 1. maí til 15. júlí.
Mæta vel klædd og í stígvélum
Gott er að mæta vel klædd í fjöruferðina og í stígvélum og með fötur eða glær ílát til að safna í hinum ýmsu lífverum og auðvitað með gott nesti. Gangan tekur 2 klst.
Gangan er eins og áður sagði samstarfsverkefni Háskóla Íslands og Ferðafélags Íslands og undir merkjum Með fróðleik í fararnesti sem hlaut Vísindamiðlunarverðlaun Rannís í fyrra.
Þúsundir Íslendinga á öllum aldri hafa notið þess að halda í göngur í þessari vísindaröð undanfarin ár og þegið fróðleik í fararnesti frá vísindamönnum og sérfræðingum HÍ við nánast hvert fótmál.
Þátttaka er ókeypis í fjöruferðinni og öll velkomin. Ekkert að panta, bara mæta!
Mæting er kl. 12 á bílastæðið við Gróttuvita.