Skip to main content
22. febrúar 2022

Hvernig verða nýir áfangastaðir til hjá ferðafólki?

Hvernig verða nýir áfangastaðir til hjá ferðafólki? - á vefsíðu Háskóla Íslands

Undanfarin ár hafa þau sem fylgjast með fréttum og færslum á samfélagsmiðlum séð hvernig nýir áfangastaðir ferðafólks verða til hver á fætur öðrum hér innanlands. Þetta hefur ekki síst verið áberandi á COVID-tímanum þegar Íslendingar hafa ferðast meira innanlands en utan. Á sama tíma hafa líka erlendir ferðamenn uppgötvað margt sem við sáum ekki sjálf. 

Árið 2020 vildi gríðarlegur fjöldi skoða Stuðlagil á Austurlandi sem Jökla eða Jökulsá á Dal hefur mótað en mikill fjöldi mynda skilaði sér árið 2020 inn á samfélagsmiðla af svæðinu og það hefur svo haldið áfram. Sömu sögu er að segja af Fjaðrárgljúfri á Suðurlandi sem kanadíski tónlistarmaðurinn Justin Bieber skellti inn í sviðsljósið með fjölda mynda á samfélagsmiðlum og í myndböndum. Síðastliðið sumar var það svo Grænihryggur í nágrenni Landmannalauga sem stóð upp úr ásamt fleiri stöðum reyndar á borð við eldstöðvarnar á Reykjanesi og Stórurð á Austurlandi.

„Einn vinsælasti viðkomustaður á landinu í ár var án efa Stórurð á Austurlandi. Það var greinilegt á Instagram sem og á öðrum samfélagsmiðlum að annar hver maður hefur nú komið að náttúruperlunni Stórurð,“ segir á fréttamiðlinum mbl.is þann 30. desember í fyrra. Þetta er auðvitað ekki vísindaleg niðurstaða í fréttinni á mbl.is en innan HÍ er nú einmitt í gangi vísindaleg rannsókn á því hvernig áfangastaðir ferðafólks verða til og þar er til skoðunar þáttur ferðamannsins sjálfs og athafna hans í þróun áfangastaðarins. 

„Þessi þróun á sér stað í ferli þar sem fjölbreyttir þátttakendur eru virkir, svo sem hagsmunaaðilar, ferðaþjónustufyrirtæki, leiðsögumenn og meira en mennskir gerendur eins og náttúran sjálf í öllu sínu veldi,“ segir Gunnar Þór Jóhannesson, prófessor í ferðamálafræði. Hann vinnur verkefnið ásamt Katrínu Önnu Lund sem einnig er prófessor í sömu fræðigrein. 

Eldgosið í Geldingadölum algerlega einstakt

Þau Gunnar Þór og Katrín Anna segja að eldsumbrotin í Geldingadölum hafi á margan hátt verið einstök með hliðsjón af aðdráttarafli. Eldgosið við Fagradalsfjall á Reykjanesi hófst þann 19. mars árið 2021 í framhaldi af mjög langri og snarpi jarðskjálftahrinu.  Eldurinn kom upp á landsvæði þar sem ekki var ýkja flókið fyrir gangandi vegfarendur að rölta á í rólegheitum og fljótlega voru stígar endurbættir til að treysta betra aðgengi og auka öryggi fólks. Ekki leið á löngu uns þessi gönguleið varð sú langvinsælasta á landinu.

Þótt Reykjanes sé allt meira og minna brunnið í eldsumbrotum og svæðið sé afar virkt þá hafði ekki gosið þar í nærri 800 ár. Þetta þóttu því tíðindi. Á Reykjanesi eru helstu þéttbýlisstaðir landsins og það var vissulega áhugavert að sjá gosbjarmann út um eldhús- eða stofugluggann og því freistandi að leggja land undir fót og skoða glóandi hraunið og gígana í návígi. Það gerðu enda gríðarlega margir. 

„Aldrei áður hefur eldgos dregið að sér viðlíka fjölda fólks hér á landi og má segja að nýr ferðamannastaður hafi sprottið bókstaflega upp úr jörðinni. Það má á sama tíma draga almennan lærdóm af eldsumbrotunum og tengslum þeirra við ferðamennsku,“ segir Katrín Anna. 

„Jarðsambönd er hugtak sem lýsir tengslum náttúru og menningar á tímum mannaldar. Það er á tímum þegar við gerum okkur sífellt betur grein fyrir að við sem félagsverur erum hvort tveggja hluti af kerfum jarðar og mótandi aðilar að þeim. Þessi tengsl taka á sig fjölbreyttar myndir. Við öndum að okkur gufum og gasi, vitin fyllast af sandi og mold í rokinu, við snertum, horfum og tökum inn hughrif svo eitthvað sé nefnt,“ segir Katrín Anna.

Jarðsambönd í ferðamennsku

Vísindafólkið bendir á að þarna hafi ferðamannastaður mótast á methraða sem dragi fram „jarðsambönd ferðamennsku.“ 

Þótt ferlið hafi átt sér stað á skömmum tíma má læra af því hvernig ferðamannastaðir almennt mótast, ekki endilega alltaf með slíku offorsi eins og á Reykjanesi heldur yfirleitt á löngum tíma. Þau Katrín Anna og Gunnar Þór lýsa þessu í öðru samhengi í bók þeirra tveggja, „Áfangastaðir – í stuttu máli“ sem Háskólaútgáfan sendi frá sér í fyrra. Bókin er ætluð öllu áhugafólki um ferðamál en í henni rýna höfundar í samband ferðaþjónustu og samfélaga með hliðsjón af uppbyggingu ferðamennsku á Ströndum á norðanverðum Vestfjörðum. „Við sýnum í bókinni hvernig náttúra og menning eru samofin svið í ferðamennsku en ekki aðgreind eins og oft er látið í veðri vaka,“ segir Gunnar Þór.  

Katrín Anna bætir því að með þessu sé spjótum beint að hefðbundnum rannsóknaraðferðum ferðamálafræðinnar og bent á nýjar leiðir til að nálgast og veita innsýn í margbreytileika ferðamennskunnar og áfangastaði ferðamanna.

Þegar spurt er út í hugtakið jarðsamband, sem margir kannast við í tengslum við rafmagn og almenn tengsl fólks við raunveruleikann og staðreyndir, er svar Katrínar Önnu á allt öðrum nótum og vísar til fleirtölu. „Jarðsambönd er hugtak sem lýsir tengslum náttúru og menningar á tímum mannaldar. Það er á tímum þegar við gerum okkur sífellt betur grein fyrir að við sem félagsverur erum hvort tveggja hluti af kerfum jarðar og mótandi aðilar að þeim. Þessi tengsl taka á sig fjölbreyttar myndir. Við öndum að okkur gufum og gasi, vitin fyllast af sandi og mold í rokinu, við snertum, horfum og tökum inn hughrif svo eitthvað sé nefnt.“

Höfum ekki fulla stjórn á hverjir áfangastaðirnir verða

Þegar farið er nánar ofan í kjölinn á rannsókninni segjast þau Gunnar Þór og Katrín Anna aðallega vera að horfa til hvernig fólk upplifi svæðin á ólíkan hátt og gefi því mismunandi merkingu í gegnum athafnir sínar. „Þetta gefur vísbendingar um hvernig ferðamannastaðir öðlast margs konar þýðingu fyrir ólíka ferðamenn og eru því ekki einsleitir. Þetta er hluti af rannsóknarferli sem við höfum verið í undanfarin ár, þ.e. hvernig áfangastaðir ferðamennsku mótast og við munum halda áfram að vinna á þessum nótum,“ segir Gunnar Þór.

Þau eru sammála um að gosið í Geldingadölum hafi gefið einstakt tækifæri til að skoða þess konar mótun í miklum ham. 

„Við sjáum hvernig fjölbreytt jarðsambönd eru iðkuð og sem slík birta þau mynd af því sem við getum kallað jarðvistarferðamennsku,“ segir Katrín Anna. „Punkturinn er sá að staðurinn verður til í jarðsambandi – í tengslum krafta jarðar og samfélags – og undirstrikar að náttúran er alls ekki tilbúið og óvirkt svið fyrir athafnir okkar mannanna. Náttúran stendur heldur ekki utan við samfélagið eins og ótamin skepna heldur er inni á gafli og hluti af daglegu lífi okkar þótt óstýrilát sé.“ 

Rannsókn vísindatvíeykisins mun draga fram mikilvægi þess að gefa náttúrunni vægi í ferðaþjónustu á hennar eigin forsendum. „Það nýtist þegar unnið er að stefnumótun og uppbyggingu áfangastaða,“ segir Gunnar Þór. „Enn fremur sýna rannsóknir okkar að aðdráttarafl eldsumbrota er afar fjölþætt og áfangastaðir eru í sífelldri mótun jafnvel þótt hagsmunaaðilar og markaðurinn leitist við að skapa eitt ákveðið konsept sem laðar að. Ferðaþjónusta til framtíðar þarf að taka tillit til jarðsambanda sem hún hefur ekki fulla stjórn á.“

Gunnar Þór Jóhannesson og Katrín Anna Lund