Hugbúnaður bætir fræðilegan texta
SageWrite er nýstofnað íslenskt sprotafyrirtæki sem er brautryðjandi í þróun á textagerðarkerfum og textabætandi lausnum fyrir fræðileg skrif. Það voru þær Elena Callegari, nýdoktor við Háskóla Íslands, og Desara Xhura sem stofnuðu fyrirtækið í kjölfar þess að Tækniþróunarsjóður Rannís veitti þeim styrk. Elena er fræðimaður hjá rannsóknarstofunni Mál og tækni sem Anton Karl Ingason dósent veitir forstöðu. SageWrite er nýjasta samstarfsverkefni rannsóknarstofunnar og einkafyrirtækis, en áður hafði rannsóknarstofan gert samstarfssamning við fyrirtækið Mentis Cura um rannsóknir á vitrænni hnignun.
Textagerðarkerfi SageWrite virkar með þeim hætti að rannsakendur færa inn gróf drög að texta sem kerfið færir í fræðilegt málsnið. „Markmið okkar er að hjálpa rannsakendum að eyða minni tíma í að skrifa greinarnar og ritgerðir og meiri tíma í að vinna að því að fullkomna hugmyndir sínar og rannsóknir,“ segir Elena. „Við höfum rætt við yfir 400 fræðimenn og yfir 79% þeirra viðurkenndu að hafa átt í erfiðleikum með sjálf skrifin, þ.e. að skrifa á fræðilegu málsniði. Þetta er risastórt mál. Á meðan Covid-19 heimsfaraldrinum stendur höfum við öll fengið tækifæri til að verða vitni að áhrifum vísindarannsókna. Ímyndaðu þér að mikilvægri grein um skilvirkni bóluefnis væri seinkað um eina viku vegna þess að vísindamenn væru of uppteknir til að skrifa hana.“
Elena undirstrikar að SageWrite hjálpar ekki vísindamönnum að móta nýjar kenningar, það verði áfram hlutverk rannsakandans: „Við berum virðingu fyrir hlutverki rannsakandans við að skapa nýjar hugmyndir og móta nýjar kenningar og við teljum að það hlutverk ætti ekki, né gæti, nokkurn tíma verið sinnt af vél. Hugmyndirnar eru áfram hjá rannsakanda. SageWrite mun einfaldlega hjálpa rannsakendum að skrifa þær upp hraðar og betur“. Markhópur fyrirtækisins er stór, eða allir sem skrifa vísindagreinar á ensku. „Og öll þau sem hafa ekki nægan tíma til þess, sem sagt allir sem vinna í akademíunni, í rauninni,“ segir Elena brosandi. „Allar mömmur og allir pabbar sem þurfa að leika við krakkana, kenna og rannsaka, og hafa því lítinn tíma til að helga skrifum. Allir sem hafa ekki ensku að móðurmáli en þurfa samt að skrifa á ensku. Allir sem eiga í erfiðleikum með að finna réttu orðin eða koma hugmyndum á blað. Listinn er í raun óendanlegur“.