Hraun og haustlitir í Búrfellsgjá á laugardag
Ef þú hefur áhuga á að njóta haustlitanna í einni aðgengilegustu eldstöðinni í nágrenni höfuðborgarinnar þá er tækifærið núna um helgina. Núna á laugardag, þann 28. september, stendur Háskóli Íslands nefnilega fyrir fróðleiksgöngu um Búrfellsgjá í samvinnu við Ferðafélag barnanna, anga innan Ferðafélags Íslands. Gangan er helguð fróðleik um fjölmargt sem ber fyrir augu.
Að rölta eftir Búrfellsgjá býður svo sannarlega upp á stórveislu fyrir öll skynfæri, ekki síst núna þegar haustlititnir hafa gripið landið. „Þegar maður röltir um gjána áttar maður sig á smæð sinni gagnvart náttúruöflunum sem sífellt minna á sig,” segir Jón Örn Guðbjartsson, vísindamiðlari við HÍ, sem mun leiða gönguna um Búrfellsgjá að gígnum Búrfelli með fararstjórum úr Ferðafélagi barnanna.
„Við ætlum að fræðast aðeins um sögur sem tengjast gjánni, líta nær okkur á gróðurinn sem er kominn í haustbúning og fræðast aðeins um eldsumbrot. Við ætlum líka að velta aðeins fyrir okkur hvernig það sem ber fyrir augu myndast í náttúrunni,“ segir Jón Örn.
„Þegar maður röltir um gjána áttar maður sig á smæð sinni gagnvart náttúruöflunum sem sífellt minna á sig,” segir Jón Örn Guðbjartsson, vísindamiðlari við HÍ, sem mun leiða gönguna um Búrfellsgjá að gígnum Búrfelli með fararstjórum úr Ferðafélagi barnanna. MYND/Kristinn Ingvarsson
Hvernig varð Búfellsgjá til?
Svæðið í kringum Búrfell er eitt það fegursta til útivistar í borgarlandinu. Á göngu um Búrfellsgjána má líta fallegan gróður og þar sjást margs konar hraunmyndanir, litlir hellisskútar, stórar sprungur, misgengi og svo auðvitað eldstöðin sjálf, uppspretta alls hraunsins.
Búrfellsgjá varð til í býsna miklu eldgosi fyrir um átta þúsund árum í litlum eldgíg, sjálfu Búrfellinu sem við sækjum heim á laugardag. Jarðvísindamenn segja að mikið hraunflæmi hafi þá runnið úr Búrfelli, bæði niður á Vellina í Hafnarfirði og um mikla hrauntröð vestur í Garðabæ og út á Álftanes og niður í Hafnarfjörð.
Vísindamenn segja að eldgosið hafi verið tiltölulega rólegt flæðigos þar sem hraun flæddi upp úr eldgígnum niður á láglendið alla leið út í sjó. Aðalhraunstraumurinn var um hrauntröð en það er heiti á stórum hraunfarvegum þar sem hraun flæðir eins og risastór fljót frá eldgígnum niður á láglendi þar sem það svo storknar og myndar hraun. Hraunin í miðbæ Hafnarfjarðar, í Garðabæ og Gálgahrauni úti á Álftanesi eiga öll uppruna sinn í Búrfelli og Búrfellsgjá. Búrfellsgjáin sjálf er því afar gott dæmi um svona hrauntröð.
Gangan á laugardag er úr verðlaunaröðinni Með fróðleik í fararnesti sem er samstarfsverkefni Háskóla Íslands og Ferðafélagsins. Jón Örn minnir fólk á að klæða sig vel, vera í góðum skóm og hafa með sér gott nesti. Viðburðurinn er eins og áður sagði laugardaginn 28. september og er mæting kl. 12 við bílastæðið við Búrfellsgjá í Heiðmörk. Stæðið við Búrfellsgjá er merkt.
Þátttaka er ókeypis eins og alltaf og öll velkomin.