Hönnunarkeppni verkfræðinema í Hörpu um helgina
Tólf lið hafa skráð sig til leiks í Hönnunarkeppni véla- og iðnaðarverkfræðinema við Háskóla Íslands sem fram fer laugardaginn 7. febrúar í Silfurbergi í Hörpu. Keppnin er hluti af opinni dagskrá UT-messunnar sem fram fer um helgina.
Hönnunarkeppnin hefur fyrir löngu unnið sér fastan sess, bæði meðal verkfræðinema við Háskóla Íslands en ekki síður hjá sjónvarpsáhorfendum enda hefur jafnan verið sýnt frá keppninni í sérstökum þætti á RÚV. Engin undantekning er á því í ár og verður þáttur um keppnina sýndur á vormánuðum.
Í Hönnunarkeppninni er sem fyrr markmiðið að koma faratæki eftir sérhannaðri braut og leysa ýmsar þrautir á leiðinni. Þannig þarf að komast yfir gryfju, fara upp bratt skáplan og flytja dós á milli hægri og vinstri hliðar brautarinnar. Eftir að dósinni hefur verið komið fyrir þarf faratækið að endingu að loka opinni rás sem verður á veggnum við enda brautarinnar.
Myndband af brautinni má sjá á Facebook-síðu keppninnar.
Veitt verða þrenn verðlaun í keppninni. Það lið sem klárar brautina með flest stig telst sigurvegari keppninnar og hlýtur 400 þúsund króna inneign í verslun Nýherja. Einnig veitir Marel 200 þúsund króna peningaverðlaun fyrir besta hönnun farartækis og aðstandendur frumlegustu hugmyndarinnar að mati dómnefndar fá einnig 200 þúsund krónur í peningaverðlaun frá Marel.
Keppnin er sem fyrr segir í Silfurbergi í Hörpu og hefst hún kl. 12.30 á laugardag. Ókeypis er inn á keppnina og allir velkomnir.