Hönnunarkeppni og eldhús framtíðarinnar á UTmessunni
Háskóli Íslands verður á UTmessunni sem fram fer í Hörpu dagana 2. og 3. mars. Meðal þess sem skólinn býður upp á er hin árlega og sívinsæla Hönnunarkeppni véla- og iðnaðarverkfræðinema auk kennslu í forritun og kynningu á eldhúsi framtíðarinnar.
UTmessan hefur verið haldin frá árinu 2011 og er einn stærsti viðburður ársins í tölvugeiranum. Markmiðið með viðburðinum er að vekja athygli á hvað upplýsingatækni er orðin stór hluti af nútímasamfélagi og að kynna nýjungar í þeim geira. Á UTmessuna mæta öll helstu tölvu- og tæknifyrirtæki landsins auk háskóla og stofnana og er dagskráin tvískipt. Föstudaginn 2. febrúar fer fram ráðstefna og sýning um það helsta sem er að gerast í tölvugeiranum en á laugardeginum er opin sýning fyrir almenning.
Háskóli Íslands verður með sýningarbás báða dagana og á laugardeginum verður skólinn með sýningarsvæði í Silfurbergi þar sem fjölbreyttur fróðleikur verður í boði. Þar verður hægt að setjast við stýrið á rafmagnskappakstursbíl sem verkfræðinemarnir í Team Spark við Háskóla Íslands haf hannað. Einnig verður boðið upp á kennslu í forritun LEGO-þjarka og að búa til lítið vasaljós. Gestir geta enn fremur skoðað sjálfan sig í hitamyndavél, mótað landslag í sérstökum sandkassa og skapað eigin tónlist með tæki frá Genki Instrument, fyrirtæki sem byggist á hugmynd nemenda við Háskóla Íslands. Þá verður hægt að ferðast um fjalllendi í sýndarveruleika með námsbraut í landfræði og Svarma, kynna sér jarðskjálftaborð byggingarverkfræðinnar í HÍ og skoða þrívíddarprentuð matvæli í eldhúsi framtíðarinnar á vegum námsbrautar í matvælafræði og Matís. Nemendur í tæknifræðinámi við Keili og Háskóla Íslands sýna hvernig vélmenni verða til og Kóðinn og HÍ kenna forritun.
Nánari upplýsingar um dagskrá Háskóla Íslands á UTmessunni
Á laugardeginum verður einnig hin vel þekkta Hönnunarkeppni véla- og iðanaðarverkfærðinema Háskóla Íslands en hún hefur hefur fyrir löngu skapað sér fastan sess sem spennandi og fróðlegur viðburður fyrir unga sem aldna. Markmið keppninnar er að koma tæki frá upphafsreit yfir á endastöð og safna stigum en liðið með flest stig vinnur. Hönnun brautarinnar er innblásin af náttúru Íslands að þessu sinni en á brautinni eru þekkt kennileiti sem komast þarf fram hjá.
Á Facebook-síðu keppninnar má sjá myndband af þrautabrautinni að þessu sinni
Dagskrá UTmessunnar á laugardag er öllum opin og ókeypis inn.