Skip to main content
23. desember 2015

Hlýtur styrk fyrir afburðaárangur í verkfræði við HÍ

Snorri Tómasson, BS-nemi í iðnaðarverkfræði, hefur hlotið viðurkenningu úr Minningarsjóði Þorvalds Finnbogasonar stúdents. Frú Vigdís Finnbogadóttir, systir Þorvalds, afhenti styrkinn við hátíðlega athöfn á Litla torgi mánudaginn 21. desember.

Tilgangur sjóðsins er að styrkja efnilega nema í verkfræði við Háskóla Íslands til framhaldsnáms í verkfræði. Nemandi sem er með hæstu meðaleinkunn eftir annað ár í grunnnámi hlýtur styrkinn hverju sinni. Minningarsjóður Þorvalds Finnbogasonar stúdents var stofnaður af foreldrum hans, Sigríði Eiríksdóttur og Finnboga Rúti Þorvaldssyni, fyrrverandi forseta verkfræðideildar Háskóla Íslands. Árlega er veitt viðurkenning úr sjóðnum til afburðanemanda í verkfræði við Háskóla Íslands en sjóðurinn var stofnaður á 21 árs afmæli Þorvalds, þann 21. desember 1952.

Snorri Tómasson hóf BS-nám í iðnaðarverkfræði við Háskóla Íslands haustið 2013. Ásamt því að vera afburðarnemandi er hann framleiðslustjóri hjá Team Spark, hópi verkfræðinema við Háskóla Íslands sem framleiðir og sendir rafknúinn kappakstursbíl til keppni á Silverstone-brautinni á Englandi næsta sumar. Þá er hann einn af umsjónarmönnum Hönnunarkeppni véla- og iðnverkfræðinema Háskóla Íslands. Síðastliðið sumar stundaði Snorri nám við Stanford-háskóla en eftir áramót hefur hann störf hjá Alvogen samhliða því að ljúka BS-námi.
 

Frú Vigdís Finnbogadóttir ásamt styrkhafanum Snorra Tómassyni, BS-nema í iðnaðarverkfræði.
Hilmar Bragi Janusson, sviðsforseti verkfræði- og náttúruvísindasviðs, Vigdís Finnbogadóttir, Snorri Tómasson styrkhafi og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.
Snorri Tómasson og frú Vigdís Finnbogadóttir
Frú Vigdís Finnbogadóttir ásamt styrkhafanum Snorra Tómassyni, BS-nema í iðnaðarverkfræði.
Hilmar Bragi Janusson, sviðsforseti verkfræði- og náttúruvísindasviðs, Vigdís Finnbogadóttir, Snorri Tómasson styrkhafi og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.
Snorri Tómasson og frú Vigdís Finnbogadóttir