Hlutu hvatningarviðurkenningu Álklasans á sviði áltengdrar nýsköpunar
Nýsköpunarmót Álklasans var haldið miðvikudaginn 30. mars í Hátíðarsal Aðalbyggingar Háskóla Íslands auk þess sem hægt var að fylgjast með mótinu í beinu streymi. Fjöldi gesta sótti mótið bæði á staðnum og í beinu streymi. Þrír nemendur frá Háskóla Íslands tóku við hvatningarviðurkenningu Álklasans.
Mótið er haldið til skiptis í Háskóla Íslands og í Háskólanum í Reykjavík og er þetta í fimmta sinn sem mótið fer fram. Á síðasta ári fór mótið fram í beinu streymi, vegna samkomutakmarkanna, frá Háskólanum í Reykjavík. Að mótinu standa Álklasinn, Háskóli Íslands, Háskólinn í Reykjavík, Tæknisetur, Samtök iðnaðarins og Samál.
Hvatningarviðurkenningar Álklasans voru afhentar fjórum nemendaverkefnum sem öll tengjast áli á einn eða annan hátt. Áherslur á snjallvæðingu og grænar lausnir voru áberandi í þeim verkefnum sem tilnefnd voru og kallast það vel á við áherslu iðnaðarins um þessar mundir. Nemendurnir sem fengu viðurkenningu í ár voru:
Frá Háskóla Íslands:
Jóhanna Lóa Ólafsdóttir og Ragnar Loki Ragnarsson
Titill verkefnis: Nýr umhverfisvænn kragasalli
Lingxue Guan
Titill verkefnis: Að samþætta öfuga osmósu með föngun CO2 fyrir raforkuframleiðslu og kolefnisbindingu.
Styrktaraðilar og nemendur við afhendingu hvatningarviðurkenninga á Nýsköpunarmóti Álklasans: Brynjar Bragason Eflu, Gunnar Sverrir Gunnarsson Mannviti, Sigrún Helgadóttir Norðuráli, Dagmar Ýr Stefánsdóttir Alcoa Fjarðaáli, Ásmundur Hálfdán, Jóhanna Lóa, Ragnar Loki, Lingxue Guan, Guðrún Sævarsdóttir Háskólanum í Reykjavík sem tók við viðurkenningu fyrir Kamaljeet Singh, Birna Pála Kristinsdóttir Isal og Guðbjörg Óskarsdóttir Álklasanum og Tæknisetri.
Frá Háskólanum í Reykjavík:
Ásmundur Hálfdán Ásmundsson
Titill verkefnis: Hönnun á stafrænum tvíbura fyrir málmflæði hjá Alcoa Fjarðaáli, með áherslu á búnað og gögn.
Kamaljeet Singh
Titill verkefnis: Grunnrannsóknir á rafgreiningu með eðalskautum.
Stuðningsaðilar hvatningarviðurkenninganna voru að þessu sinni, Alcoa Fjarðaál, Efla verkfræðistofa, Íslandsstofa, Landsbankinn, Mannvit, Norðurál, Rio Tinto á Íslandi, Samál, Samtök iðnaðarins og Tæknisetur.
Við óskum viðurkenningarhöfum hjartanlega til hamingju.
Hægt er að horfa á upptöku frá Nýsköpunarmóti Álklasans með því að smella HÉR
Meðfylgjandi eru svipmyndir frá mótinu.
Ljósmyndari: Árni Torfason