Hlaut viðurkenningu Ský fyrir framúrskarandi árangur í námi í tölvunarfræði
Síðastliðinn laugardag fór fram brautskráning kandidata frá Háskóla Íslands. Við það tækifæri veitti Skýrslutæknifélag Íslands (Ský), bókagjöf til nemanda fyrir framúrskarandi árangur í BS námi í tölvunarfræði.
Viðurkenninguna að þessu sinni hlaut Sunneva Þorsteinsdóttir en hún brautskráðist með BS í tölvunarfræði sama dag. Ásamt því að sinna háskólanámi með framúrskarandi árangri hefur Sunneva sinnt formennsku og varaformennsku fyrir Ada – Hagsmunafélag kvenna í upplýsingatækni við HÍ, hún hefur einnig sinnt aðstoðarkennslu við námsleiðina og tekið virkan þátt í kynningarstarfi námsbrautarinnar á opinberum vettvangi.
Bókin sem Sunneva fékk að gjöf er bókin Tölvuvæðing í hálfa öld eftir Önnu Ólafsdóttur Björnsson en bókin var gefin út af Skýrslutæknifélagi Íslands.
Það voru þeir Rúnar Unnþórsson, deildarforseti, Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði-, og tölvunarfræðideildar og Matthias Book, prófessor í tölvunarfræði og námsbrautarstjóri sem afhentu Sunneva viðurkenninguna.
Verkfræði- og náttúruvísindasvið óskar Sunnevu hjartanlega til hamingju með viðurkenninguna og nýju háskólagráðuna.