Hjónaband rauðu fiskanna í íslenskri þýðingu
Út er komin bókin Hjónaband rauðu fiskanna eftir Guadalupe Nettel í þýðingu Kristínar Guðrúnar Jónsdóttur, prófessors í spænsku við Mála- og menningardeild Háskóla Íslands. Kristín ritaði einnig eftirmála þar sem fjallað er um mikilvægi dýra í smá- og örsagnaskrifum Rómönsku-Ameríku.
Í bókinni er að finna fimm smásögur sem fjalla á einn eða annan hátt um hliðstæða hegðun dýra og manna. Höfundur nýtir sér þessa samlíkingu til að kafa í leyndustu kima mannssálarinnar og velta fyrir sér flóknum, óútskýranlegum tengslum milli fólks. Hegðun síamskra bardagafiska endurspeglar hjónaband sem er að flosna upp, dregin er upp mynd af einhleypri ófrískri konu og kettlingafullum ketti, kakkalakkar gera innrás á heimili vel stæðrar fjölskyldu sem hefur tekið að sér fátækan dreng. Einnig bregður fyrir snák og leitinni að sjálfsvitund og einkennilegum sveppamyndunum hjá konu sem hefur stigið út fyrir hjónaband sitt. Sögurnar eru í senn grátbroslegar og óhugnanlegar.
Guadalupe Nettel er frá Mexíkó, fædd 1973, og er með athyglisverðustu höfundum Rómönsku -Ameríku sem nú eru uppi. Hún hefur sent frá sér skáldsögur, fræðirit og smásögur. Hún er ritstjóri hins virta tímarits Revista de la Universidad de México.
Kristín Guðrún Jónsdóttir hefur einkum stundað rannsóknir og þýðingar á örsögum og smásögum eftir höfunda frá Rómönsku-Ameríku og er formaður Stutt-rannsóknastofu Háskóla Íslands í smásögum og styttri textum. Hún hefur gefið út fjölda greina og þýtt sögur sem hafa verið gefnar út í safnritunum við kvikuna. Örsögur frá Rómönsku-Ameríku, Smásögur heimsins. Rómanska-Ameríka, Sunnudagsmatur og fleiri sögur Rómafólks, Heimar mætast. Smásögur frá Mexíkó, Svo fagurgrænar og frjósamar. Smásögur frá Kúbu, Púertó Ríkó og Dóminíska lýðveldinu og Smáskammtar. Örsögur eftir Ana María Shua. Kristín hlaut Íslensku þýðingaverðlaunin 2013 fyrir bókina Svarti sauðurinn og aðrar fabúlur eftir Augusto Monterroso.
Hjónaband rauðu fiskanna er gefin út af Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum og Háskólaútgáfunni og styrkt af Miðstöð íslenskra bókmennta og Styrktarsjóði Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur.