Helgi Björnsson sendir frá sér barnabók um jökla og ís
Ótal spurningar um jökla og loftslagsmál brunnu á nemendum í sjöunda árgangi Melaskóla sem fengu í morgun heimsókn frá Helga Björnssyni, prófessor emeritus í jöklafræði við Háskóla Íslands, í tilefni af degi íslenskrar náttúru. Helgi var að senda frá sér barnabók um þessi efni sem unnin er í samstarfi við Vísindavef Háskóla Íslands.
Helgi er heimsþekktur vísindamaður á sviði jöklafræði og hefur í áratugi rannsakað jökla og áhrif loftslagsbreytinga á þá. Ritverk Helga eru um 260 á löngum og farsælum vísindamannsferli, flest þeirra ætluð sérfræðingum og birt í ritrýndum fræðiritum. Í dag, á degi íslenskrar náttúru, kom hins vegar út bókin „Af hverju eru jöklar og ís á jörðinni: Spurningar af Vísindavefnum um jökla og loftslagsmál“ sem Helgi hefur skrifað sérstaklega handa börnum og fróðleiksfúsum almenningi. Þetta er önnur bókin á vegum Vísindavefs Háskóla Íslands þar sem vísindum og fræðum er miðlað til ungra barna en útgefandi hennar er Mál og menning.
Í bókinni er að finna 45 spurningar og svör um jökla og loftslagsmál, meðal annars svör við spurningunum: Hvernig verða jöklar til? Eru jöklar á öðrum hnöttum? Dó allt líf út á Íslandi þegar jökull lá yfir landinu? Hvers vegna hlýnar nú á jörðinni? og Hvað gæti mannkynið gert til þess að draga úr hlýnun jarðar? Öllum spurningum fylgja skemmtilegar og skýrandi myndir.
Hátt í hundrað börn úr sjöunda bekk í Melaskóla komu saman í hátíðasal skólans í dag í tilefni af degi íslenskrar náttúru og þar gafst þeim kostur á að fræðast um og spyrja Helga spjörunum úr um jökla, ís og loftslagsmál. Áður en að því kom afhenti Jón Gunnar Þorsteinsson, ritstjóri Vísindavefsins, Sigrúnu Magnúsdóttur umhverfis- og auðlindaráðherra eintak af nýju bókinni og þá fékk sjöundi bekkur einnig fjögur eintök til eignar.
Meðal spurninga sem brunnu á börnunum var hversu mikið heimshöfin myndu hækka ef allir jöklar heimsins bráðna, hvers vegna jöklar skríða fram á við og hvers vegna jöklar á Íslandi bráðnuðu svo hratt sem raun ber vitni. Svörin hafði Helgi á reiðum höndum en þau er einnig að finna í barnabókinni sem kom út í dag.