Gunnar Stefánsson verður aðstoðarrektor vísinda við Háskóla norðurslóða

Háskóli Íslands og Háskóli norðurslóða (University of the Arctic) hafa gert með sér samstarfssamning um að Gunnar Stefánsson, prófessor í verkfræði við Háskóla Íslands, verði aðstoðarrektor vísinda hjá UArctic til næstu fimm ára. Þetta er mjög ánægjulegt í ljósi mikilvægi þess að samstarf háskóla á norðurslóðum sé ríkulegt.
Norðurslóðir standa frammi fyrir margvíslegum áskorunum sem krefjast samvinnu á sviði rannsókna og kennslu. Með þessu móti verður Háskóli Íslands leiðandi í netverki háskóla norðurslóða en háskólinn á meðal annars einnig fulltrúa í stjórn UArctic.
Lars Kullerud, forseti Háskóla norðurslóða, og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, undirrita samninginn á Litla Torgi (Háskólatorgi) þriðjudaginn 30. maí kl. 12–13 á opnu málþingi um mikilvægi rannsóknasamstarfs á norðurslóðum.
Málþingið sækja nemendur úr samstarfsverkefninu ARCADE sem Rannsóknasetur um norðurslóðir við Háskóla Íslands heldur utan um í samstarfi við Sjálfbærnistofnun Háskóla Íslands, Háskólann í Nuuk á Grænlandi, Háskólann í Tromsø í Noregi, Arctic Initiative við Harvard Kennedy skólann og Hringborð norðurslóða. Nánari upplýsingar um ARCADE.
Erindi á málþinginu flytja
- Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti og formaður Hringborðs Norðurslóða
- Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands
- Lars Kullerud, forseti Háskóla norðurslóða (UArctic)
- Aud Lise Norheim, sendiherra Noregs á Íslandi
- Tove Søvndahl Gant, sendiherra Grænlands á Íslandi
- Fundarstjóri: Pia Hansson, forstöðumaður Rannsóknaseturs um norðurslóðir við Háskóla Íslands.
Málþingið er öllum opið.
Háskóli Íslands og Háskóli norðurslóða (University of the Arctic) hafa gert með sér samstarfssamning um að Gunnar Stefánsson, prófessor í verkfræði við Háskóla Íslands, verði aðstoðarrektor vísinda hjá UArctic til næstu fimm ára. MYND/Kristinn Ingvarsson