Góður árangur kappakstursliðs Háskólans
Team Spark, hönnnunar- og kappaksturslið Háskóla Íslands, er nú komið heim eftir að hafa tekið þátt í tveimur Formula Student hönnunar- og aksturskeppnum á Ítalíu og í Austurríki.
Keppnin á Ítalíu gekk í heildina mjög vel. Eftir smá lagfæringar komst liðið í gegnum tækniskoðun og allar öryggisprófanir. Rafmagnsskoðunum gekk mjög vel en liðið hefur aldrei verið komist jafn fljótt í gegnum hana. Aðeins ein villa kom upp og náðist að laga hana. Þrátt fyrir þennan frábæra árangur féll liðið á tíma, komst ekki í bremsuprófið og gat því ekki keyrt bílinn.
Á keppninni voru haldnar vel heppnaðar hönnunar-, viðskipta- og kostnaðarkynningar og náði liðið betri árangri í þeim öllum en á síðasta ári.
Liðið lenti í 11. sæti af 19 rafmagnsliðum og fékk í heildina 220.59 stig.
Frá Ítalíu var haldið til Austurríkis. Eftir strangar vinnustundir milli keppna mætti liðið á Red Bull Ring í Spielberg 30. júlí, tilbúið að hefja seinni keppnina.
Með miklar væntingar var farið með Laka í öryggispróf þar sem farið er yfir allan öryggisbúnað auk þess sem ökumenn þurfa að sýna fram á getu til að yfirgefa bílinn á stuttum tíma í neyðaraðstæðum.
Liðið komst fljótt í gegnum öryggisprófið. Næst var farið í tæknipróf þar sem dómarar fara yfir vélræna hönnun bílsins og ganga úr skugga um að framleiðslan sé bæði góð og samkvæmt reglum keppninnar. Liðið fékk örfáar athugasemdir sem voru lagaðar samstundis og um kvöldið stóðst Laki tækniprófið.
Næst þurfti Laki að standast rafmagnspróf. Framan af gekk allt vel og lágspennukerfið flaug í gegnum prófanirnar. Þegar kom að háspennukerfinu kom upp ný villa í miðju prófi. Rafmagnshópurinn vann dag og nótt við að laga villuna en búið var að loka fyrir prófið áður en náðist að laga hana. Því náði Laki ekki að keyra í Austurríki.
Þrátt fyrir að hafa ekki fengið að keyra bílinn náði Team Spark ótrúlegum framförum frá síðasta ári og þá sérstaklega í þyngd bílsins. LAKI er aðeins 217 kg en bíll síðasta árs, TS16, var um 273 kg. Markmiðið í ár var að létta bílinn um 40 kg og tókst það vonum framar. Kynningahlutinn gekk einnig mjög vel, þar kynnti liðið viðskiptaáætlun fyrir bílinn ásamt því að rökstyðja hönnunina og kostnaðinn á bak við bílinn.
Team Spark vill þakka öllum kærlega fyrir hvatninguna og fyrir að fylgjast með. Það var liðinu mikils virði að finna fyrir stuðningnum að heiman. Liðið vill einnig þakka sínum dyggu styrktaraðilum sem hafa aðstoðað við að gera þetta verkefni að veruleika.