Skip to main content
24. september 2020

Gestaprófessorar í hópi áhrifamestu vísindamanna heims

""

Tveir af gestaprófessorum Rafmagns- og tölvunarfræðideildar Háskóla Íslands, Jocelyn Chanussot og Ian F. Akyildiz, eru meðal þeirra sem komast á lista hins virta greiningarfyrirtækis Clarivate Analytics yfir áhrifamestu vísindamenn heims. 

Clarivate Analytics hefur undanfarin ár tekið saman slíkan lista og en hann nær til þess eins prósents vísindamanna innan hverrar fræðigreinar sem mest er vitnað til í vísindagreinum sem birtast í alþjóðlegum vísindatímaritum. Listinn byggist á gögnum úr gagnabankanum Web of Science.

Áður hefur komið fram að bæði Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands og prófessor við Rafmagns- og tölvuverkræðideild, og Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar og prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands, eru á listanum og sama má segja um Bernharð Örn Pálsson, prófessor við Kaliforníuháskóla í San Diego og gestaprófessor við Háskóla Íslands.

Jocelyn Chanussot er prófessor við Grenoble Institute of Technology í Frakklandi og hefur sérhæft sig í fjarkönnun, sem felst í því að taka stafrænar myndir úr flugvélum, drónum og gervitunglum og vinna úr þeim hvers kyns upplýsingar um yfirborð jarðarinnar. Hann hefur verið gestaprófessor við Rafmagns- og tölvuverkfræðideild frá árinu 2013 og verið í nánu samstarfi við deildinna. Chanussot hefur meðal annars kennt þar námskeið, tekið þátt í leiðsögn framhaldsnema og skrifað vísindagreinar með starfsmönnum deildarinnar.

Ian F. Akyildiz er prófessor emeritus við rafmagns- og tölvuverkfræðideild Georgia Institute of Technology og á að baki afar farsælan feril á sviði rannsókna í fjarskiptafræðum. Hann varð gestaprófessor við Rafmagns- og tölvuverkfræðideils núna í haust og mun vinna með deildinni að því að efla rannsóknir í fjarskiptaverkfræði og taka þátt í kennslu. Þá mun hann bjóða upp á nýtt valnámskeið í hlutanetum (e. Internet of things) vorið 2021.

Lista Clarivate Analytics yfir áhrifamestu vísindamenn heims má nálgast á vef fyrirtækisins.
 

Jocelyn Chanussot og Ian F. Akyildiz