Fyrstur til að ljúka doktorsprófi í efnaverkfræði frá Háskóla Íslands
Ebrahim Tayyebi varð á dögunum fyrstur til þess að ljúka doktorsprófi í efnaverkfræði frá Háskóla Íslands. Rannsókn hans eru hluti af spennandi verkefni sem snýst um að finna nýjar leiðir til áburðar- og eldsneytisframleiðslu.
Efnaverkfræði hefur notið vaxandi vinsælda innan Háskólans að undanförnu og sem stendur leggja rúmlega 50 nemendur stund á greinina í grunn- og framhaldsnámi. Eins og nafnið bendir byggist efnaverkfræðin á samspili efnafræði og verkfræði þar sem þekking í raunvísindum er nýtt til að finna upp, hanna og bæta ferla sem notaðir eru til að framleiða orku, matvæli, lyf og efni sem nýtast í nánast öllum vörum sem notaðar eru í samfélaginu.
Ebrahim hóf doktorsnám í greininni fyrir fjórum árum við Háskóla Íslands og verkefni hans var á sviði svokallaðrar rafefnafræði. Í því studdist hann við skammtafræðilega tölvureikninga til að rannsaka hvort tilteknir málm- eða málmoxíðefnahvatar geti afoxað köfnunarefni (N2) í áburð eða koltvísýring (CO2) í eldneyti (t.d. metanól). Hvort tveggja hefur verið helsta rannsóknarefni leiðbeinanda Ebrahims, Egils Skúlasonar, prófessors við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild, undanfarin ár og Egill hefur ásamt samstarfsfólki m.a. stofnað sprotafyrirtækið Atmonia, sem stefnir að umhverfisvænni þróun ammóníaks til áburðarframleiðslu, á grundvelli rannsóknanna.
Í ritgerð sinn, sem nefnist „Rafefnafræðileg CO2 og N2 afoxun á málmum og málmoxíðum“ einbeitti Ebrahim sér að möguleikum tiltekins málms eða málmoxíðs, sem tengist frumefninu rúþeníum, sem efnahvata fyrir myndun metanóls úr CO2 og ammóníaks úr N2. Tölvureikningar sýndu að þessir möguleikar eru fyrir hendi en frekari rannsóknir eru þó nauðsynlegar til að fá skýrari mynd af ferlinu og möguleikum þess.
Nánari upplýsingar um doktorrannsókn Ebrahims er að finna á vef Háskólans.