Fuglaskoðun í Grafarvogi á degi verkalýðsins
„Margir af okkar stóru stofnum farfugla eru komnir til landsins að verulegu leyti. Hvarvetna má sjá gæsir á túnum svo sem heiðagæsir, grágæsir og helsingja, bæði hér fyrir sunnan og fyrir norðan, t.d. í Langadalnum. Tjaldarnir eru flestir komnir til landsins og farnir á óðöl og sumir jafnvel byrjaðir að verpa. Enn eru þó nokkrar tegundir, sem koma lengra að, ekki enn komnar, svo sem óðinshaninn, krían og kjóinn en fyrstu spóarnir eru mættir.“
Þetta segir Sölvi Rúnar Vignisson, doktorsnemi í líffræði við Háskóla Íslands og kennari, en hann mun leiða göngu á vit farfuglanna okkar í Grafarvogi þann 1. maí. Gangan er hluti af samstarfsverkefni Ferðafélags barnanna og HÍ.
Gangan hefst við Grafarvogskirkju klukkan 12 og tekur um tvo tíma og er frábært að hafa með sér sjónauka og nettar fuglaskruddur. Gengið verður með fram Grafarvoginum og augum beint í fjöruna og út á voginn. Sölvi Rúnar og hans teymi mun mæta með sérstaka fuglasjónauka sem afar gagnlegt er að nota.
Sölvi Rúnar er mikill áhugamaður um fugla og segir að áhuginn hafi kviknað snemma þegar hann skoðaði fugla sem krakki með föður sínum. „Áhuginn vaknaði svo aftur í grunnnáminu við Háskóla Íslands. Rannsóknir hafa enda alltaf heillað mig og þorstinn í að læra meira er óslökkvandi.“
Íslendingar telja sig vera ríka af fuglum og eru duglegir að njóta söngs þeirra í þéttbýli og mólendi, í skógum, klettum, björgum og á heiðum og vötnum, svo dæmi séu tekin. Á Íslandi verpa samt færri en 80 fuglategundir en hér er að finna hlutfall sem er frábrugðið flestum löndum Evrópu vegna fjarlægðar frá meginlandinu og einstöku landslagi. „Hér er lítið um skóga og háplöntur en mikið um víðerni, eyjar og fuglabjörg sem eru varin frá helstu rándýrum.“
Reikna má með að fjöldi fuglategunda verði í Grafarvogi
Þegar Sölvi Rúnar er spurður um þær tegundir sem líklegast verði sýnilegar þann 1. maí svarar hann því til að ekki sé hægt að slá neinu föstu um það. „En vonandi sjáum við nokkra af einkennisfuglum Íslands nýta fjöruna sem fæðusvæði í undirbúningi varps. Vaðfuglar gætu verið í fjörunni, svo sem tjaldar, stelkar, sandlóur, jaðrakanar, heiðlóur og hrossagaukar. Andfuglar gætu verið þar, grágæsir, stokkendur, urtendur, toppendur, rauðhöfðar og grafendur svo eitthvað sé nefnt. Grafarvogurinn er nú sjaldan þekktur fyrir sjófugla en skarfar og æðarfuglar verða nú líklega í einhverju færi fyrir mannsaugað.“
Tjaldar eru afar hugleiknir Sölva Rúnari en doktorsverkefnið hans er einmitt helgað þeim fallega fugli sem er reyndar að hluta til staðfugl en um þriðjungur stofnsins fer ekki utan yfir veturinn.
Máfar sækja líka í Grafarvoginn í leit að fiski, t.d. sílamáfur, hettumáfur, svartbakur, stormmáfur og líklega dílaskarfur. Svo eru spörfuglarnir reglulega í trjánum í kringum göngustíginn, eins og skógarþröstur og jafnvel svartþröstur og hugsanlega auðnutittlingur. Með mikilli heppni má koma auga á glókoll, langminnsta fugl Íslands. Stari er mjög víða í kringum Grafarvogskirkju enda notar hann kirkjuna sem næturstað að vetrarlagi.
Til viðbótar þessu þá eru stundum tildrur og mögulega rauðbrystingar að hlaða tankinn en þeir millilenda hérlendis á leið sinni á varpstöðvarnar. Tildra verpir á Grændlandi og í norðausturhluta Kanada. Rauðbrystingur verpir einnig á Grænlandi og á íshafseyjum Kanada.
„Vanalega eru það ungu fuglarnir, sem eru að koma nýir inn í stofninn, sem verpa fyrr og því drífa þeir áfram breytingarnar á stofninum frekar en að eldri einstaklingar breyti sínu munstri. Á Íslandi höfum við verið að sjá komutíma fugla færast framar á vorið með þessari hlýnun, ásamt því að stofnar eins og jaðrakaninn, sem var bundinn að mestu við Suðurland, sést nú í öllum sveitum landsins,“ segir Sölvi.
Hegðun fugla breyst með loftslagsbreytingum
Afar áhugavert að vita hvort hegðun og útbreiðsla fugla hafi breyst í kjölfar loftslagsbreytinga en í stefnu Háskólans er sérstök áhersla lögð á heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og þau snúa meðal annars af loftslagsbreytingum. „Já, það má segja að útbreiðsla og kerfi farfugla séu sífellt að breytast og þeir virðast flestir vera duglegir að svara slíkum breytingum,“ svarar Sölvi Rúnar.
Hann segir að síðustu ár eða áratugi hafi tegundir bæst við í fuglafánu landsins. Helst megi rekja það til breyttra búsvæða og umsvifa mannsins. „Þar má nefna algengar spörfuglategundir frá Evrópu sem ná bólfestu vegna aukningar í skógrækt. Ef við förum svo enn lengra aftur þá eru flestar okkar máfategundir nýjar af nálinni en sú nýjasta er stormmáfurinn sem hefur verið að dreifa sér mikið undanfarin ár,“ segir Sölvi Rúnar.
„Vanalega eru það ungu fuglarnir, sem eru að koma nýir inn í stofninn, sem verpa fyrr og því drífa þeir áfram breytingarnar á stofninum frekar en að eldri einstaklingar breyti sínu munstri. Á Íslandi höfum við verið að sjá komutíma fugla færast framar á vorið með þessari hlýnun ásamt því að stofnar eins og jaðrakaninn, sem var bundinn að mestu við Suðurland, sést nú í öllum sveitum landsins.“
Mikilvægt að miðla fróðleik til almennings
Í stefnu HÍ er áhersla á að gera vísindastarf HÍ sýnilegra. Sölvi Rúnar segir það skipta miklu að miðla vísindum til almennings. „Best væri ef allt menntakerfið okkar væri virkara í að beita vísindalegri nálgun og rökfræði þegar kemur að flestu ef ekki öllu í okkar samfélagi. Ungmennin eru framtíðin og ef við viljum sjá breytingar og fá svör við stórum vandamálum dagsins í dag þá þurfum við að efla vísindin og örva samspil okkar við náttúruna.“
Þátttaka í göngunni þann 1. maí er ókeypis og eru öll velkomin.
Það þarf ekkert að panta, bara mæta kl. 12 við Grafarvogskirkju og er hægt að leggja bílum við kirkjuna.