Skip to main content
12. febrúar 2018

Bætt spálíkan um leysingu jökla

Líkan sem gerir vísindamönnum betur kleift að spá fyrir um hversu hratt jöklar bregðast við loftslagsbreytingum er meðal afraksturs þriggja ára rannsóknarverkefnis sem vísindamenn við Jarðvísindastofnun Háskólans hafa unnið í samstarfi við innlendar og erlendar stofnanir og fyrirtæki. Líkanið nýtist m.a. Landsvirkjun við áætlanagerð í raforkuframleiðslu og flóðvörnum.

Verkefnið sem um ræðir nefnist SAMAR og hefur notið styrks frá Rannís undanfarin ár. Meginmarkmið þess var að bæta spáhæfni orkubúskapslíkana sem notuð eru til að reikna leysingu jökla. Í samvinnu við vísindamenn á dönsku veðurstofunni (DMI) hafa jarðvísindamenn undir forystu Guðfinnu Aðalgeirsdóttur, prófessors í jöklafræði, þróað líkan sem reiknar orkuskipti við yfirborð allra íslensku jöklanna og þar með leysingu þeirra frá 1980 til 2016. Sérstök áhersla hefur verið lögð á að prófa líkanið með mælingum sem aflað hefur verið á Vatnajökli frá árinu 1991-1992. „Líkanið hefur verið keyrt bæði fyrir stutt tímabil eins og daga og vikur og lengri, eða fyrir áratugi, til að þróa spár um hversu hratt jöklarnir bregðast við loftlagsbreytingum og stuðla að hækkandi sjávarstöðu,” segir Guðfinna.

Einn af þeim þáttum sem stjórnar hversu mikill ís bráðnar hverju sinni er endurkastsstuðull yfirborðs jökulsins (e. albedo). Hann er mjög breytilegur á íslenskum jöklum þegar snjór breytist í ís. Ryk, sandur og aska frá eldgosum sem berst yfir jöklana hefur einnig áhrif á endurkastsstuðulinn og þar með bráðnun íssins. Með þetta í huga leituðu aðstandendur verkefnisins samstarfs við vísindamenn utan Háskólans. Annars vegar var unnið með vísindamönnum hérlendis sem rannsökuðu áhrif ryks og ösku á endurkast frá yfirborði jökla og hins vegar með frönskum vísindamanni við Háskólann í Toulouse sem lagði til gögn úr MODIS-gervihnöttum sem gerði það kleift að setja saman þróun endurkastsstuðuls alls Vatnajökuls yfir tímabilið 2001-2012. 

Afurðir verkefnisins SAMAR eru m.a. yfirlit yfir þróun bæði endurkaststuðuls Vantajökuls og leysingar allra jökla landsins yfir tímabilið 1980-2016.  Líkanið sem þróað var í verkefninu getur enn fremur reiknað lengra aftur í tímann og sömuleiðis framtíðarleysingu jöklanna með jaðarskilyrðum frá loftlagslíkönum að gefnum ákveðnum sviðsmyndum um framtíðina. „Þetta er í fyrsta skipti sem mögulegt er að sannprófa og endurbæta veðurfarslíkan fyrir leysingu jökla því gögn um afkomu jökla ásamt mælingum frá sjálfvirkum veðurstöðvum sem aflað hefur verið á Íslandi á síðustu tveimur áratugum eru hvergi eins góð í heiminum. Niðurstöður verkefnisins hafa alþjóðlegt gildi þar sem endurbætt líkön geta leitt til meiri nákvæmni í reikningum á massatapi íslensku jöklanna og Grænlandsjökuls í framtíðinni,“ segir Guðfinna enn fremur.

Gott samstarf hefur verið í verkefninu milli Jarðvísindastofnunar Háskólans, dönsku og íslensku veðurstofanna, Háskólans í Toulouse og Landsvirkjunar sem mun nýta niðurstöður verkefnisins í áætlanagerð í raforkuframleiðslu og flóðvarnir. Þá mun doktorsneminn Louise Steffensen Schmidt vinna áfram að verkefninu með styrk frá Rannsóknasjóði Háskóla Íslands en hún stefnir á útskrift vorið 2019. 

Vísindamenn og aðrir starfsmenn Jarðvísindastofnunar við uppsetningu veðurstöðva á Mýrdalsjökli 2015.
Frá mælingaferð vísindamann á Mýrdalsjökul.