Skip to main content
27. febrúar 2017

Bændur vilja ríkulegt mófuglalíf á jörðum sínum

""

Yfirgnæfandi meirihluti bænda vill hafa ríkulegt mófuglalíf á jörðum sínum en sextíu af hundraði þeirra hyggjast auka flatarmál ræktaðs lands á næstu árum. Það er líklegt til að hafa áhrif á mófuglastofna að mati vísindamanna við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Suðurlandi en grein eftir þá um viðfangsefnið birtist á dögunum í hinu virta vísindatímariti Ecology and Society. 

„Íslenskir bændur ráða yfir stærstum hluta láglendis Íslands sem er ein mikilvægasta varpstöð mófugla í heiminum. Landnotkun íslenskra bænda getur því haft mikil og fjölbreytt áhrif á afkomu þessara stofna sem margir hverjir eiga undir högg að sækja á heimsvísu. Mikilvægi Íslands á þessu sviði endurspeglast í fjölda alþjóðlegra samninga á sviði náttúruverndar sem Íslendingar eiga aðild að.“

Þetta segir Lilja Jóhannesdóttir, doktorsnemi við Rannsóknasetrið, en hún er fyrsti höfundur greinarinnar í Ecology and Society.  Doktorsrannsókn Lilju hefur samspil landbúnaðar og fuglalífs á Íslandi í háskerpu og hefur hún lagt spurningar fyrir fjölda bænda víða um land. Meðhöfundar Lilju að greininni eru þau José Alves, nýdoktor við Rannsóknasetrið, Jennifer A. Gill, prófessor við University of East Anglia, og Tómas Grétar Gunnarsson, forstöðumaður Rannsóknasetursins.

Lilja segir að náttúruvernd á Íslandi velti mikið á að bændur hafi áhuga á henni. „Náttúruvernd er af ýmsum toga en þessi rannsókn snerist um að kanna viðhorf bænda til verndar mófuglum. Íslenskir bændur virðast langflestir hafa áhuga á að viðhalda ríkulegu fuglalífi á jörðum sínum og vera reiðubúnir að leggja nokkuð á sig til að viðhalda þessari sérstöðu íslensku sveitanna. Þessar upplýsingar hafa ekki legið fyrir áður en niðurstöðurnar eru bæði gleðilegar og vekja bjartsýni.“

Lilja segir að rannsóknir á tengslum fugla við landnotkun geti gefið víðtækari vísbendingar sem gagnast við náttúruvernd. „Á sjöunda tug bænda víða um land tók þátt í rannsókninni þar sem skoðuð voru viðhorf bænda til mófugla og aðgerða sem miða að vernd þeirra. Í ljós kom að flestir bændur, eða 94%, telja mikilvægt að hafa ríkulegt mófuglalíf á landi sínu og eru jákvæðir í garð flestra þeirra verndaraðgerða sem um var spurt. Einnig kom fram að margir bændur, eða 60% aðspurðra, hyggjast auka flatarmál ræktaðs lands á næstu árum sem er líklegt til að hafa neikvæð áhrif á suma mófuglastofna. Upplýsingar um afstöðu bænda til náttúruverndar og landnotkunar eru mikilvægt fyrsta skref í þá átt að samræma matvælaframleiðslu og náttúruvernd sem best. Jákvætt viðhorf bænda til náttúruverndar gefur tilefni til bjartsýni en jafnframt er ljóst að bændur þurfa á stuðningi stjórnvalda og almennings að halda til að geta gegnt hlutverki sínu sem gæslumenn landsins sem best.“

Náttúruvernd snýst um að vernda líf og land

Tómas Grétar, sem jafnframt er leiðbeinandi Lilju í doktorsverkefninu, segir að náttúruvernd snúist um að vernda líf og land. „Þau kerfi sem halda mönnum og öðrum kvikindum á lífi eru samtvinnuð. Ferlar sem verka í lofti, jarðvegi, vatni og lífverum spila saman á órjúfanlegan hátt og mynda þá sinfóníu sem náttúran er,“ segir Tómas Grétar. „Náttúruvernd í verki felst einkum í því að fara vel með auðlindir: land, vatn og loft. Árangur getur t.d. endurspeglast í góðri ræktunarmold sem ekki er gengið á, hreinu vatni og líflegu dýralífi.“ 

Hann bendir á að miðað við mikilvægi náttúruverndar ætti að vera sjálfgefið að allir tækju þátt í henni af fúsum og frjálsum vilja. „Svo er þó ekki,“ segir hann. „Hagsmunir af notkun á landi eru fjölbreyttir, oft nærtækari en óræð vernd, og afleiðingar landnotkunar koma oftast fram seinna og á öðrum mælikvörðum heldur en drifkraftar breytinga. Þannig geta smávægilegar breytingar á landnotkun sem þjóna staðbundnum hagsmunum haft lítil áhrif en uppsöfnuð áhrif margra slíkra breytinga geta haft veruleg neikvæð áhrif. Þannig koma raunar áhrif flestra breytinga á landi fram, sem uppsöfnuð áhrif á löngum tíma.“

Bændum erlendis umbunað fyrir að taka mið af náttúrufari

Lilja segir að víða í nágrannalöndum okkar séu kerfi til staðar sem umbuna bændum fyrir að taka tillit til náttúrufars umfram það sem lagaákvæði kveða á um. „Engin slík kerfi eru fyrir hendi á Íslandi umfram það sem tilgreint er í lögum um náttúruvernd. Af þessum sökum var spurt í rannsókninni hvort að það væri líklegt til að hafa áhrif á þátttöku bænda í náttúruvernd ef greiðslur væru í boði. Á þessu stigi töldu bændur það ekki líklegt til að breyta miklu en vera má að það sé vegna þess að slíkt hefur ekki verið rætt mikið á Íslandi. Eins má nefna að greiðslur til annarra þátta eru þegar til staðar og talsvert nýttar, t.d. vegna landbúnaðarframleiðslu og skógræktar. Því er ekki ólíklegt að bændur myndu líka nýta sér möguleika á að stunda náttúruvernd gegn greiðslu ef slíkt væri í boði. Það hefur einnig verið reyndin í öðrum löndum. Náttúruvernd getur ekki verið á herðum bænda og landeigenda einna, stjórnvöld og almenningur verða að styðja þá í að fara vel með landið. Náttúruvernd verður að byggja á samfélagssátt sem felur í sér gagnkvæma ábyrgð og skilning. Sterkari aðkoma stjórnvalda að náttúruvernd í samstarfi við bændur er eina leiðin til að vernda náttúruauðlindir á Íslandi. Almenningur verður einnig að vera meðvitaður og styðja þá bændur sem standa sig vel. Í slíku samspili felast mörg tækifæri.“

Við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Suðurlandi stendur fyrir dyrum vinna sem miðar að því að taka saman vísindalegar upplýsingar um tengsl landnotkunar og fuglalífs á Íslandi. Stefnt er að því að miðla þeirri þekkingu til sem flestra sem hún kæmi að gagni.

Lilja Jóhannesdóttir
Tómas Grétar Gunnarsson