Skip to main content
10. maí 2024

Áframhaldandi samstarf HÍ og Alvotech um nám í iðnaðarlíftækni

Áframhaldandi samstarf HÍ og Alvotech um nám í iðnaðarlíftækni - á vefsíðu Háskóla Íslands

Róbert Wessman, stjórnarformaður og forstjóri Alvotech, Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, Ingibjörg Gunnarsdóttir, starfandi forseti Heilbrigðisvísindasviðs, og Sigurður Magnús Garðarsson, forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs, endurnýjuðu á dögunum samstarfssamning milli HÍ og Alvotech um meistaranám í iðnaðarlíftækni.

Í námi í iðnaðarlíftækni er lögð áhersla á rannsóknir og að veita hagnýta þjálfun og reynslu sem nýtist í starfi fyrir líftæknifyrirtæki. Kennsla á námsleiðinni er í höndum starfsfólks á Heilbrigðisvísindasviði og Verkfræði- og náttúruvísindasviði Háskólans í samstarfi við starfsfólk Alvotech. Þá hefur Alvotech lagt námsleiðinni til fjármagn og aðstöðu og hafa nemendur HÍ unnið lokaverkefni í samstarfi við fyrirtækið. 

Samstarfssamningur um námið var fyrst undirritaður árið 2019 og hefur samstarfið gengið afar vel. Nú þegar hefur á annan tug nemenda brautskráðst með meistaragráðu í iðnaðarlíftækni og þá stunda rúmlega 20 nemendur nám í greininni um þessar mundir. Meðal þeirra sem sótt hafa námið er starfsfólk Alvotech en fyrirtækið er eins og kunnugt er með höfuðstöðvar sínar á svæði Vísindagarða Háskóla Íslands í Vatnsmýri.

Samstarf Háskólans og Alvotech nær til fleiri þátta en reksturs námsleiðar í iðnaðarlíftækni því Alvotech hefur boðið nýútskrifuðum nemendum í líffræði, efnafræði, lífefnafræði, lífeindafræði, líftækni og lyfjafræði tækifæri til starfsþjálfunar sem leitt getur til framtíðarstarfs. Þá hafa aðilarnir tveir styrkt rannsóknarinnviði hér á landi með sameiginlegum tækjakaupum og staðið saman að málþingum um nýsköpun, líftækni og lyfjafræði með erlendum og innlendum fyrirlesurum.
 

Fulltrúar Alvotech og Háskóla Íslands við endurnýjun samstarfssamningsins.

Fulltrúar Alvotech og Háskóla Íslands við endurnýjun samstarfssamningsins. Standandi eru Jóhann G. Jóhannsson og Sesselja Ómarsdóttir. Sitjandi frá vinstri eru Sigurður Magnús Garðarsson, Róbert Wessman, Jón Atli Benediktsson og Ingibjörg Gunnarsdóttir. MYND/Gunnar Sverrisson