Á leið til Englands og Ítalíu með TS16
„Við erum orðin mjög spennt. Við getum ekki beðið eftir að fá að sýna dómurunum afrakstur mikillar vinnu,“ segir Laufey Benediktsdóttir, framkvæmdastjóri Team Spark, liðs verkfræðinema við Háskóla Íslands sem heldur utan í vikunni til að taka þátt í tveimur kappaksturs- og hönnunarmótum verkfræðinema í Englandi og á Ítalíu. Liðið hefur hannað og smíðað rafknúinn kappakstursbíl fyrir mótin.
Bíllinn ber nafnið TS16 og hefur verið í hönnun og smíði frá því í fyrrahaust. Bíllinn var frumsýndur á Háskólatorgi þann 7. apríl síðastliðinn að viðstöddu fjölmenni en hönnun hans byggst á hönnun TS15, kappakstursbíls sem lið síðasta árs fór með á Silverstone-kappakstursbrautina í Englandi í fyrra. Allnokkrar breytingar voru þó gerðar á milli ára, t.d. þróaðir vængir eða „spoilerar“ á bílinn og kraftur hans aukinn, en þess má geta að nemendurnir fá hluta af vinnu sinni metna í námi sínu í verkfræði við Háskóla Íslands.
Liðið hefur haft í nógu að snúast frá afhjúpun bílsins í apríl, m.a. við æfingaaksturs og frekari endurbætur á bílnum. „Snemma í maí fengum við aðstöðu á Kvartmílubrautinni til að geyma bílinn milli keyrslna og það kom sér afar vel þar sem það sparar tímafreka flutninga. Allan maímánuð reynsluókum við bílnum en við náðum um það bil tveimur æfingum á viku. Með þessum hætti náðum við settu markmiði en það var að keyra bílinn 100 km á Íslandi áður en við færum út. Þetta er í fyrsta skiptið sem við náum að keyra bílinn reglulega áður en keppni hefst og við höfum lært heilmikið á því. Ökumennirnir hafa náð ágætis tökum á bílnum og hafa aðallega verið að æfa sig í skid-pad eða áttuakstri. Gaman er að sjá muninn á skid-pad tímatökum en ökumennirnir náðu miklum framförum með góðri æfingu,“ segir Laufey.
Laufey segir aðspurð að ýmis vandamál hafi komið upp í tengslum við reynsluaksturinn. „Festingar brotnuðu, beygjuradíus bílsins reyndist ekki nógu mikill og það voru vandamál með stýrismaskínuna. Um miðjan júnímánuð var því ákveðið að fara með bílinn aftur upp í Háskóla þar sem átti að laga þessi atriði. Það tókst ágætlega en tók gríðarlegan tíma. TS16 fór svo í gám þriðjudaginn 28. júní áleiðis til Englands ásamt öllum öðrum farangri,“ segir Laufey en liðið hefur síðan þá undirbúið sig af kappi fyrir kynningarhluta Formula Student keppninnar á Silverstone-brautinni.
Etja kappi við 130 lið
Lið frá Háskólanum hefur tekið þátt í Formula Student á Silverstone frá árinu 2011 og ætíð lagt áherslu á rafknúinn kappakstursbíl. Keppnin er sú stærsta sinnar tegundar í heiminum en yfir 130 háskólalið frá 30 löndum er skráð til leiks í ár og því er ljóst að samkeppnin verður afar hörð. Keppt er í tveimur flokkum í Formula Student. Í flokki 1 eru lið dæmd út frá bæði hönnun einstakra hluta bílsins og akstri hans á kappakstursbraut en í flokki 2 eru hönnun og áætlanir kynntar en ekki er keppt í kappakstri. Team Spark hyggst keppa í flokki 1 líkt og tvö undanfarin ár.
Formula Student keppnin á Silverstone stendur yfir dagana 14.-17. júlí en þaðan stefnir Team Spark á Varano de' Melegari nærri Parma á Ítalíu þar sem liðið hyggst taka þátt í Formula SAE Italy í fyrsta sinn, en keppnin fer fram helgina 22.-25. júlí. „Við erum talsvert stór hópur sem leggur land undir fót. Fjörutíu félagar fylgja TS16 eftir til Bretlands og 28 til Ítalíu. Þónokkuð verður um fyrrverandi liðsmenn Team Spark sem ná ekki að slíta sig frá verkefninu og þykir alltaf jafn gaman að koma á Silverstone,“ segir Laufey og brosir.
Markmiðið að aka bílnum á mótunum
Markmið hópsins eru afar skýr. „Markmið okkar í ár númer 1, 2 og 3 er að taka þátt í aksturshluta keppninnar. Dómarar hafa verið mjög strangir þegar kemur að öryggisreglum og rafmagnið hefur undanfarin ár verið að stríða Team Spark á Silverstone svo ef okkur tekst að keyra úti væri það sigur fyrir liðið,“ segir Laufey.
Auk aksturshlutans er keppt í kynningum sem snúa að fleiri hliðum verkefnisins. „Til dæmis er horft á hönnun, kostnað og viðskiptaáætlun vegna bílanna og markmiðið er að halda okkur áfram á meðal efstu 20 liðanna í þeim hluta keppninnar. Okkur þykir afar mikilvægt að hafa háleit markmið þar sem við erum metnaðarfull og markmiðin eru okkur mikil hvatning. Auk þess að keyra TS16 úti á Silverstone og á Ítalíu viljum við gjarna líka vera fyrirmyndir fyrir ungt fólk og sýna hvað nýsköpun og verkfræði getur gefið mikið af sér,“ segir Laufey.
Það má heyra á Laufey að mikill spenningur er í hópnum. „Við neitum því ekki að við erum líka dálítið stressuð enda búin að bíða eftir þessu í allan vetur og erum með miklar væntingar til okkar sjálfra. Stressið er hins vegar af því góða og gefur okkur aukinn kraft til að takast á við verkefnin sem bíða okkar fyrir keppni og á keppnunum sjálfum,“ segir hún að endingu.
Hægt verður að fylgjast með liðinu á mótunum tveimur á Facebook-síðu Team Spark, Instagram, Twitter og Snapchat undir team.spark.
Háskóli Íslands óskar liðsmönnum Team Spark góðs gengis í þessum krefjandi verkefnum í Englandi og á Ítalíu.