Hvenær verður inntökuprófið 2024? Svar: Inntökupróf Læknadeildar og Tannlæknadeildar Háskóla Íslands (læknisfræði, sjúkraþjálfunarfræði og tannlæknisfræði) verður haldið dagana 6. og 7. júní 2024. Hvað komast margir að í læknisfræði, sjúkraþjálfunarfræði og tannlæknisfræði haustið 2024? Svar: 75 í læknisfræði, 35 í sjúkraþjálfunarfræði og 40 í tannlæknisfræði. Hvernig sæki ég um að taka inntökuprófið? Svar: Senda þarf inn almenna rafræna umsókn í grunnnám í læknisfræði, sjúkraþjálfunarfræði eða tannlæknisfræði fyrir 20. maí til að vera skráður í inntökuprófið. Einnig þarf að skila inn staðfestu afriti af Stúdentsprófi til Nemendaskrár fyrir sama tíma. Sjá "Umsókn um nám" undir flýtileiðir á forsíðu hi.is fyrir frekari upplýsingar. Hvaða dagsetningar er mikilvægast að hafa í huga ef maður stefnir á að taka inntökuprófið? Svar: Þrjár mikilvægustu dagsetningarnar eru skráningarfresturinn og skiladagur gagna sem er 20. maí ár hvert, gjalddagi/eindagi skráningargjaldsins og svo prófdagarnir sjálfir. Á hvaða braut á ég að fara í framhaldsskóla ef ég stefni á inntökuprófið? Svar: Læknadeild hefur sérstaklega haft í huga að sem flestir stúdentar af náttúrufræði-, mála- og félagsfræðibrautum geti undirbúið sig fyrir inntökuprófið. Náttúrufræðibraut veitir þó besta grunninn vegna þess að það námsefni sem stór hluti prófsins tekur mið af er í kjarna hennar en almennar raungreinar eru ríkjandi þáttur í prófinu. Er skynsamlegt að taka einhver námskeið í háskólanum nú í vor til undirbúnings? Svar: Það er undir þekkingarlegri stöðu nemandans komið hvaða viðbótarnám myndi gagnast honum. Þeim sem hafa góða undirstöðu úr framhaldsskóla myndi þó sennilega gagnast best að bæta við sig háskólanámi. Hvaða nám viðkomandi ætti að velja með töku inntökuprófsins í huga, er komið undir því hvar hann er veikastur fyrir þekkingarlega séð. Hvaða námsefni var lagt til grundvallar fyrir inntökuprófið, þegar eldri Aðalnámskrá framhaldsskóla var almennt í gildi? Svar: Læknadeild valdi í samstarfi við Félag íslenskra framhaldsskóla í upphafi (2003) þá áfanga sem inntökuprófið grundvallaðist á og var það í samræmi við aðalnámskrána sem þá var í gildi. Í nokkrum framhaldsskólum er þó enn kennt samkvæmt þeirri aðalnámskrá. Því er áfram mælt með eftirfarandi áföngum til undibúnings fyrir prófið: Eðlisfræði: EÐL 103, 203 Efnafræði: EFN 103, 203, 303, 313 Enska: ENS 103, 203, 303, 403 Félagsfræði: FÉL 103 Íslenska: ÍSL 102, 202, 212, 303, 403, 503 Náttúruvísindi: NÁT 103, 113, 123, Líffræði: LÍF 103, 203 Saga: SAG 103, 203 Stærðfræði: STÆ 103, 203, 303, 403, 503 Tölfræði: STÆ 313 Sálfræði: 103 Hvaða námsefni er miðað við, þegar ekki er lengur samræmd áfangalýsing fyrir alla framhaldsskóla? Svar: Ný aðalnámskrá framhaldskóla hefur verið samþykkt og mun gilda í öllum framhaldsskólum frá og með 2015. Læknadeild mælir með því að nemendur búi yfir þekkingu, leikni og hæfni sem einkennir hæfniþrep 2-3 fyrir eftirfarandi námsgreinar: íslensku ensku stærðfræði líffræði efnafræði Auk þekkingar, leikni og hæfni sem einkennir hæfniþrep 1-2 í eftirfarandi námsgreinum: eðlisfræði náttúruvísindi félagsfræði saga sálfræði Stendur til að vera með bókalista eða verða gefnar frekari upplýsingar um námsefnið? Svar: Það verða ekki gefnir út neinir bókalistar fyrir prófið, einungis bent á þau áherslu- og efnisatriði sem koma fram í Aðalnámskrá framhaldsskóla. Þetta er nýnæmi fyrir flesta nemendur framhaldsskóla en í samræmi við þau vinnubrögð sem tíðkast í háskóla þar sem áhersluatriði í náminu eru fyrst og fremst gefin upp, en nemendur verða síðan sjálfir að afla sér þekkingar um efnið. Á prófum er síðan kannað hvort menn hafi tileinkað sér efnið og geti notað það. Varðandi efnið til prófs, þurfum við að lesa aftur Njálu og fleiri bækur sem okkur voru kenndar í framhaldsskóla? Svar: Það er ekki útilokað að á prófinu verði einstaka spurningar sem tengjast Njálu eða svipuðum bókmenntum. Eru haldin einhver undirbúningsnámskeið fyrir inntökuprófið? Svar: Engin undirbúningsnámskeið hafa verið haldin á vegum Læknadeildar né Tannlæknadeildar. Undanfarin ár hefur þó verið boðið upp á slík námskeið á annarra vegum. Stendur próftökum til boða einhver aðstoð/stuðningur frá deildunum eða fyrir tilstuðlan hennar? Svar: Sú aðstoð sem deildirnar leggja sig fram um að veita varðandi inntökuprófið felst í greinargóðum upplýsingum um uppbyggingu og framkvæmd prófsins og sýnishornum af prófspurningum sem er að finna á heimasíðu prófsins. Geta próftakar sótt um sérúrræði á prófinu? Svar: Já, próftakar geta sótt um sérúrræði hjá Náms- og starfsráðgjöf Háskóla Íslands fyrir 20. maí, sjá frekari upplýsingar á heimasíðu NSHÍ. Ef að umsækjandi um inntökuprófið er þegar nemi í HÍ með sérúrræðasamning við NHÍ, gildir sá samningur líka fyrir inntökuprófið? Svar: Já, nemar með virka samninga við NHÍ hafa þau sérúrræði líka sjálfkrafa á inntökuprófinu. Fáum við reiknivélar/tölvur eða megum við koma með okkar eigin í prófið? Svar: Læknadeild leggur til reiknivélar (vasareikna) sem nota skal í prófinu og munu þær liggja frami á prófstað. Það er með öllu óheimilt að koma með aðrar reiknivélar eða hjálpargögn og nota á prófstað. Nýjar reiknivélar voru teknar í notkun vorið 2018 af tegundinni Casio fx-350ES PLUS. Er möguleiki að fá að taka inntökuprófið á ensku? Svar: Prófið er eingöngu á íslensku en sumum prófhlutum fylgja íslensk/enskar orðaþýðingar. Einnig er leyfilegt að svara á ensku í skriflegum svörum svo sem í siðfræði. Er leyfilegt að taka orðabók með sér í prófið? Svar: Orðabækur eru ekki leyfðar í prófinu þar sem orðskýringar fylgja oft með, en sumum prófhlutum fylgja íslensk/enskar orðaþýðingar. Einnig er leyfilegt að svara á ensku í skriflegum svörum svo sem í siðfræði. Hvað gerist ef ég sæki ekki um eða greiði ekki staðfestingargjaldið á réttum tíma? Svar: Ekki eru veittar undanþágur frá birtum dagsetningum, þeir sem greiða ekki fyrir settan tíma fyrirgera rétti sínum til próftöku. Getur maður yfirgefið prófsalinn hvenær sem er? Svar: Hver próflota tekur tvo klukkutíma. Almennt er ekki leyfilegt að yfirgefa prófstað fyrr en eftir klukkutíma. Leyfi prófgæslumanna þarf til þess að fara á salerni. Ef maður lendir í vandræðum með spurningu, er þá leyfilegt að spyrja? Svar: Engum efnislegum spurningum er svarað á prófstað. Nemendur geta óskað eftir blöðum til að skrá athugasemdir sínar á. Farið er yfir allar athugasemdir að prófi loknu. Komi í ljós galli í spurningu er tekið tillit til þess við útreikning einkunna. Hvað má maður eiga von á þungum spurningum á inntökuprófinu? Svar: Þyngd prófspurninga er alltaf matsatriði og það sem einum finnst þungt getur öðrum fundist létt. Prófið verður miðað við það að allir sem hafa þá þekkingu sem krafist er til stúdentsprófs af bóknámsbraut ættu að geta náð góðum árangri á prófinu. Hvert verður vægi námsgreina? Svar: Það getur verið breytilegt milli ára hvar áherslan liggur en ávallt verður megináherslan á raungreinar í prófinu. Verður beitt sálfræðilegu greiningaprófi í viðtali sem síu eins og gert er við ráðningar flugmanna? Svar: Nei, en í þeim hluta sem snýr að siðfræði verða spurningar sem gætu flokkast sem slíkar og verða þær samdar og farið yfir þær af viðeigandi sérfræðingum. Nemandi skal ná lágmarkseinkunn 5,0 að meðaltali í spurningum um siðfræðileg álitaefni. Verða spurningar á prófinu þar sem merkja á við hvort fullyrðing er rétt eða röng? Svar: Nei, satt/ósatt spurningar eru ekki lengur lagðar fyrir á inntökuprófinu. Í hverju felst yrt rökfærsla? Svar: Sá prófhluti er ekki úr ákveðnu námsefni en gengur út á skilning á texta og rökhugsun. Má taka inntökuprófið á Ipad? Svar: Það er í góðu lagi, svo fremi að þér takist að nota hann fyrir sýnisprófið, sem aðgengilegt er nokkrum dögum fyrir prófið sjálft. Má taka með sér heyrnarhlífar eða eyrnatappa í prófið? Svar: Heyrnarhlífar eru ekki leyfðar en það má taka með sér eyrnatappa. Verður dregið frá fyrir röng svör á inntökuprófinu? Svar: Nei, það verður ekki dregið frá fyrir röng svör. Verður tekið tillit til stúdentsprófseinkunnar við yfirferð prófanna? Svar: Nei. Hvað áætlið þið ykkur langan tíma til yfirferðar? Svar: Gert er ráð fyrir að það taki allt að einn mánuð að fara yfir úrlausnir og að einkunnir verði birtar eigi síðar en um miðjan júlí. Samkvæmt 4 gr. reglna um inntökuprófið getur nemandi sem tók prófið skráð sig í deildir Háskólans fram til 20. júlí. Ef ég öðlast rétt til náms, af hverju þarf ég að staðfesta með tölvupósti að ég þiggi plássið? Svar: Allir sem samþykktir eru í nám að loknu inntökuprófi þurfa að staðfesta að þeir þiggji plássið vegna þess að ef einhver gerir það ekki þarf að vera hægt að bjóða það næsta manni á lista. Ef ég öðlast rétt til náms, get ég beðið með að hefja nám í eitt ár eða fleiri? Svar: Inntökuprófið gildir einungis fyrir inntöku sama árs og það er tekið. Veljir þú að nýta þér ekki réttinn til að hefja nám þá fellur hann niður. Ef ég kemst ekki inn, hvað þá? Svar: Allir próftakar sem ekki öðlast rétt til náms í þeirri námsgrein sem þeir sóttu um fá möguleika á að sækja um í annað nám eftir að niðurstöður hafa verið birtar. Þessi síða er uppfærð áður en opnað er fyrir umsóknir ár hvert facebooklinkedintwitter