Háskóli Íslands býður upp á sannkallaða vísindaveislu á Vísindavöku Rannís en þar munu vísindamenn miðla rannsóknum sínum á lifandi og gagnvirkan hátt. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir! Vísindavakan verður haldin í Laugardalshöll laugardaginn 28. september 2019 frá kl. 15:00-20:00. Hér er að finna yfirlit yfir kynningar vísindamanna frá Háskóla Íslands, flokkað eftir fræðasviðum. Félagsvísindi Íslensk sjálfsmynd í kreppu - og hvað svo? Um er að ræða kynningu á rannsóknarverkefni sem snýr að sjálfsmyndarsköpun á Íslandi í útrás og hruni og ímynd lands og þjóðar út á við. Hvaða spurningar vakti efnahagshrunið upp varðandi stöðu Íslands sem þjóð meðal þjóða? Hvernig tengist vörumerkjavæðing Íslands hvítleika og kyni? Verkefnið var styrkt af Rannís og Rannsóknarsjóð HÍ. Nýlega (2018 og 2019) komu út tvær bækur sem kynna niðurstöður verkefnisins. Erlent og innlent fræðifólk kom að verkefninu. Vísindamaður: Kristín Loftsdóttir Tengsl og tilvera – Rannsóknir í félagsráðgjöf Kynning á því hvernig sandur er notaður í tengslavinnu með börnum og ungmennum. Vísindamaður: Hervör Alma Árnadóttir Af hverju er Ísland að ná árangri í fótbolta? Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu hefur á síðustu árum skráð sig á spjöld knattspyrnusögunnar með því að verða minnsta þjóðin til að taka þátt í lokakeppni Evrópumótins (EM 2016) og Heimsmeistaramótsins (HM 2018). Árangur liðsins hefur vakið heimsathygli. En hvernig fór Ísland að því að ná viðlíka árangri í vinsælustu íþróttagrein heims? Rannsóknir í félagsfræði hafa meðal annars sýnt hvernig félagsleg umgjörð íþrótta á Íslandi og stemning meðal leikmanna og þjóðar hjálpuðu íslenska landsliðinu að komast í allra fremstu röð í knattspyrnuheiminum. Vísindamaður: Viðar Halldórsson Heilbrigðisvísindi Sebrafiskar sem módellífverur fyrir sjúkdóma í mönnum Sebrafiskar eru skemmtilegt dýramódel sem hægt er að nota til að rannsaka sjúkdóma mannsins, atferli, þroska lífvera og margt fleira. Sebrafiskarannsóknir á Íslandi byggja á samstarfi milli Lífvísindaseturs Háskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík. Sebrafiskar eru meðal annars erfðabreyttir með CRISP-Cas9 aðferðinni. Vísindamaður: Valerie H. Maier Augað og súrefnismælingar í augnbotnum Sjónhimna augans er aðgengileg til skoðunar með sérstökum myndavélum og þar er hægt að skoða bæði taugakerfi og sérstakt æðakerfi. Augað líkist á margan hátt myndavél. Augað og heilinn búa saman til mynd af umhverfinu sem yfirleitt er í góðu samræmi við raunveruleikann. Með einföldum og skemmtilegum tilraunum er þó hægt að sýna að frá því eru frávik og heilinn bæði túlkar og fyllir í eyður. Vísindamaður: Sveinn Hákon Harðarson Örverur að störfum í matvælum Við ætlum að vera með sýnishorn af allskonar vörum sem fólk veit ekki að er búið til með gerjun og upplýsingar um það. Við ætlum síðan að bjóða upp á súkkulaði (sem ta, ta, tammm – er unnið úr gerjuðum kakóbaunum) Vísindamaður: Sveinbjörg Halldórsdóttir Daglegur skammtur – ávextir og grænmeti Við látum fólk giska á hvað það telji að dagskammtur fyrir fullorðna af ávöxtum og grænmeti sé mikið. Að auki bjóðum við upp á ávexti og grænmeti sem snakk fyrir gesti og gangandi. Vísindamaður: Sveinbjörg Halldórsdóttir Bjargráður til bjargar Gestir læra undirstöðuatriði hnartahnoðs og skyndihjálpar. Vísindamaður: Þorbergur Atli Þorbergsson Hugvísindi Lýðræðisleg stjórnarskrárgerð: Tekist á um borgaraþátttöku, vald stofnana og sameiginleg gæði Í verkefninu er leitast við að rannsaka þá lærdóma sem draga má af íslenska stjórnarskrárferlinu sem hófst árið 2010. Fjallað er um vinnu Stjórnlagaráðs, sem afhenti Alþingi drög að nýrri stjórnarskrá árið 2011, og sömuleiðis um tilraunir til að vinna að heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar á árunum 2018 til 2025. Fræðilegar forsendur þessarar endurskoðunar teknar til rækilegrar skoðunar. Verkefnið sameinar nákvæma rannsókn á vinnu Stjórnlagaráðs og umræðu um þær kenningar á sviði rökræðulýðræðis og þekkingarmiðaðs lýðræðis sem lágu að baki henni. Þessi bakgrunnur er svo nýttur til að fylgjast með og fjalla um yfirstandandi tilraunir til að hefja endurskoðun stjórnarskrár á nýjan leik með aðkomu almennings, en verkefnið fylgist með og veitir ráð um almenningssamráð stjórnvalda. Vísindamaður: Jón Ólafsson Heimsins hnoss: Söfn efnismenningar, menningararfur og merking Hvernig varðveitum við hugmyndina um liðna tíð, hvernig er fólk og umhverfi þess skráð og hvernig gerð er grein fyrir því í sögulegum heimildum. Hvaða hluti átti fólk samkvæmt ólíkum „söfnum“ og hvernig voru þeir nýttir? Það þarf að ræða hvernig hlutirnir voru búnir til, hvernig fólk eignaðist þá, hvernig þeir voru notaðir og hvað fólki (eigendunum og öðrum) fannst um þá – um hugmynda- og hugarfarslegt gildi þeirra – og hvort þeir öðluðust í hversdagslífinu sérstaka merkingu. Ólíkum „söfnum“ verður teflt saman til þess að fá tækifæri til að skoða hugmyndir manna um fortíðina út frá nýju sjónarhorni og gagnrýna um leið hvernig fræðaheimurinn hefur unnið sín verk. Vísindamaður: Sigurður Gylfi Magnússon Málfræðileg áhrif stafrænna miðla og tækninýjunga Verkefnið felst í því að gera úttekt á stöðu íslensku og ensku í íslensku málsamfélagi og kanna hvort stafrænt sambýli við ensku gegnum tölvur, snjallsíma, sjónvarp, tölvuleiki o.fl. hefur áhrif á málkerfi og málnotkun Íslendinga, einkum barna og unglinga. Rannsóknin felur í sér mikilvægt framlag á sviði fræðikenninga um máltöku og málbreytingar, líf og dauða tungumála, breytileika og þróun í máli einstaklinga og mun einnig varpa ljósi á stöðu og framtíð íslenskunnar. Vísindamaður: Sigríður Sigurjónsdóttir Dysjar hinna dæmdu Markmiðið með rannsókninni er að leita þeirra einstaklinga sem teknir voru af lífi hérlendis frá 1550–1830. Nöfn þeirra, brot og dómar verða skráðir en einnig bakgrunnur þeirra kannaður með tilliti til stöðu, fjölskylduhags og búsetu. Þá er markmiðið að skrá þá staði þar sem aftökurnar fóru fram og leita dysja og mannvistarleifa innan þeirra. Stefnt er að því að grafa upp sumar dysjanna svo varpa megi frekara ljósi á heilsufar líflátinna, klæðnað þeirra, grafarumbúnað og aðferðir við aftöku. Auk þessa verða aftökurnar settar í sögulegt og félagslegt samhengi með tilliti til veðurfars og stjórnarhátta. Athugað verður hvort brotum hafi fjölgað í hallærum og sömuleiðis hvort greina megi breytingar í viðhorfi til þeirra á tímabilinu. Loks verður stétt böðla könnuð. Vísindamaður: Steinunn Kristjánsdóttir Menntavísindi Skapandi skólastarf Kynningin nær til tveggja verkefna. Annars vegar Makey: Makerspaces in the early years, og hins vegar samstarf MVS við skóla- og frístundasvið Reykjavíkur um nýsköpun í skólastarfi. Fulltrúar sem tengjast þessum verkefnum munu í samstarfi skapa námsrými þar sem tækni og sköpun eru í fyrirrúmi. Vísindamenn: Svava Pétursdóttir, Þorbjörg St. Þorsteinsdóttir, Erla Stefánsdóttir og Tryggvi Thayer Notað og nýtt í textílmennt Vefurinn Textíltorg Menntamiðju verður kynntur og farið yfir það hvernig textílkennarar geta nýtt sér vettvanginn til að miðla og sækja sér hugmyndir af kennsluverkefnum. Fólk getur komið og séð hugmyndir af kennsluverkefnum sem unnin eru úr endurnýtanlegum efniviði, einnig hefur fólk kost á að prufa að vinna nokkur verkefni eftir leiðbeiningum á Youtube. Vísindamenn: Þyrey Hlífarsdóttir og Ása Fanney Gestsdóttir Þetta er ekki oj þetta er dýr! Notkun myndmiðlunar til að efla áhuga og þekkingu fjölbreytts nemendahóps á lífvísindum. Vísindamenn: Edda Elísabet Magnúsdóttir og Kristín Norðdahl Hvernig bætum við svefn Mikilvægi svefns og svefnrútínu í daglegu lífi verður kynnt ásamt niðurstöðum doktorsverkefna á svefn- og heilsuhegðun íslenskra ungmenna. Vísindamenn: Rúna Sif Stefánsdóttir og Erlingur Sigurður Jóhannsson Verkfræði- og náttúruvísindi Fæðuöryggi heimsins - þörfin á að loka fosfathringrásinni My research investigates the sustainability aspects of the global supply chain of phosphorus, an essential mineral for food production. It analyses the impact of phosphorus supply on national and global food security and identifies intervention points in the system to make the supply chain more sustainable. Vísindamaður: Claudiu-Eduard Nedelciu Loftmengun í íbúahverfum og á almenningssvæðum Markmiðið er að eiga samræðu við almenning um hvenær mengun í almennings- og einkasvæðum sé réttmæt. Vísindamaður: Hrund Ólöf Andradóttir Broskallar tengja saman kennslukerfi og þróunaraðstoð Íslenskt kerfi til kennslu og rannsókna hefur verið notað til kennslu við ýmsa skóla á Íslandi. Nemendum er umbunað með rafmyntinni Brosköllum (SmileyCoin) og rannsóknir sýna bæði, hvernig umbunin hefur áhrif á vinnu nemenda í kerfinu og mikilvægi þess að nemendur fái úthlutað spurningum við sitt hæfi. Kerfið, sem er þróað á vegum hóps við Háskóla Íslands er að auki sem hluti af þróunaraðstoð Styrktarfélagsins Broskalla til Kenýa. Vísindamaður: Gunnar Stefánsson Efnasmíðar á efnum með nanóuppbyggingu og greining á þeim Nýting á Mössbauer litrófsgreiningar á 57*Fe útgeislun (e. emission Mössbauer spectroscopy, eMS) í ISOLDE aðstöðunni við CERN til að rannsaka grundvallareiginleika sem og eiginleika framkallaða af veilum í rafeinda, segul- og atómbyggingu þunnra húða úr nítríðum og oxíðum hliðarmálma sem ræktaðar hafa verið við Örtæknisetur Íslands. Vísindamaður: Bingcui Qi Hver er ELENA? ELENA verkefnið hófst haustið 2016 og er til fjögurra ára og snýr í meginatriðum að efnafræði sem grundvelli örtækni. Þannig eru stundaðar rannsóknir á því sviði og framtíðarstarfmenn þjálfaðir með það fyrir augum að styrkja nýsköpun tengda örtækni í Evrópu og tryggja samkeppnishæfni álfunnar á þessu sviði í þágu iðnaðar og atvinnulífs og samfélagsins í heild. Í rannsóknum ELENA vísindahópsins er sjónum sérstaklega beint að tvenns konar tækni til örtækniprentunar yfirborða, annars vegar með skörpum rafeindageislum og hins vegar með háorkuljósgeislum. Vísindamenn: Abid Ali, Oddur Ingólfsson, Maicol Cipriani, Ali Kamali og Reza Tafrishi Íslenski haförninn - Greining á erfðabreytileika Íslenska haferninum var nærri útrýmt í byrjun síðustu aldar þegar hann taldi aðeins um 20 pör. Þrátt fyrir friðun 1914 stækkaði stofninn ekki að ráði fyrr en um 1970 eftir að notkun refaeiturs var bönnuð. Frjósemi arnanna er hinsvegar lág og minni en í nágrannalöndunum. Verkefnið miðar að því að rannsaka áhrif stofnstæðrar á erfðabreytileika, þróun og á æxlunarárangur lítilla stofna. Athugað verða erfðamengi hafarna frá Íslandi og frá nágrannalöndunum, bæði frá byrjun síðustu aldar og frá síðustu tveimur áratugum. Vísindamaður: Snæbjörn Pálsson Heimur hvalanna: Fjölbreyttar hvalarannsóknir á Íslandi Við Ísland er að finna fjölbreyttar tegundir hvala sem hver um sig er stórmerkileg. Rannsóknum á atferli og vistfræði þessara mögnuðu sjávarspendýra hefur fleygt fram á Íslandi síðustu árin sem hefur gefið dýpri innsýn inn í lifnaðarhætti þeirra. Hvalir dvelja um 90% ævi sinnar neðansjávar sem reynir á hugvitið við þróun rannsóknaraðferða en vegna mikillar tækniframþróunar síðasta áratuginn hafa möguleikar til hvalarannsókna snaraukist. Ein þeirra aðferða sem hefur reynst sérstaklega vel er notkun neðasjávarhljóðupptaka þar sem hvalir nýta hljóð í sínum daglegu athöfnum. Í undirdjúpunum nýtist hljóðmyndunin hvölunum til að greina umhverfi sitt, rata og til samskipta. Sú aðferð hefur skilað okkur mikilli þekkingu á atferli hvala við Ísland, sem dæmi um afurðir þessara rannsókna er aukin þekking á margslungnum söngvum hnúfubakstarfanna sem þeir syngja hástöfum á veturna á mökunartímanum, hin einstöku kallmerki háhyrninganna sem sumhver hafa aðeins heyrst við Íslandsstrendur og viðbrögð djúpköfunarhvala við hljóðmengun á hafi úti. Vísindamaður: Elísabet Edda Magnúsdóttir Samfélagsleg nýsköpun Hvernig getur tæknin hjálpað heyrnarlausu fólki að hlusta á tónlist? Hvaða tækni nýtist við að gasa lífrænan úrgang? Vísindamaður: Rúnar Unnþórsson DEEP-EST öfurtölva og snjallsímann þinn: greining með tauganetum Notaðu myndavél snjallsímans til að greina hluti í rauntíma. Þótt tauganet séu enn best þjálfuð í ofurtölvu, þá keyra þau jafn vel í vafra snjallsímans. Komdu með snjallsímann þinn og hluti eins og epli, banana eða bangsa og láttu snjallsímann þinn greina þá. Vísindamaður: Helmut Wolfram Neukirchen Stafræn Samvinnustofa Stór hugbúnaðarverkefni fara oft fram úr tíma- eða fjárhagsáætlun eða skortir á gæði eða virkni. Slíkt má oft rekja til samskiptavandamála meðal hagsmunaaðila verkefna. Til að bæta þessi samskipti kynnum við Stafræna Samvinnustofa (e. Augmented Interaction Room), tæki sem gerir hagsmunaaðilum kleift að skrifa skýringar við óformlegar skissur af hugbúnaðarkerfum sínum með athugasemdum þar sem lögð er áhersla á gildi, vinnu og áhættuvalda. Líkönin með skýringum geta verið hvati fyrir umfjöllun og skilning á umfangi og áskorunum verkefnisins hjá öllum hagsmunaaðilum verkefnisins og geta hjálpað þeim að taka upplýstari ákvarðanir í hugbúnaðargerð og verkefnastjórnun. Vísindamaður: Matthias Book Sandkassatilraunir með eldfjöll og jarðskorpuhreyfingar Gestir geta búið til öskjur í eldfjöllum, misgengi, flekahreyfingar, kvikuinnskot, skriðuhreyfingar o.fl. Vísindamaður: Halldór Geirsson Virðiskeðjur matvæla: framtíðarsýn Markmið VALUMICS verkefnisins er að þróa aðferðir til að einfalda ákvarðanatöku við framleiðslu á matvælum. Þannig er miðað að því að allir sem taka ákvarðanir geti metið fyrirfram áhrif og afleiðingar ákvarðanna sinna, sem og að sjálfbærni verði aukin, gagnsæi og aðlögunarhæfni í virðiskeðjum sem lúta að framleiðslu á matvælum. Með niðurstöðum VALUMICS munu fást verkfæri fyrir alla þá sem þurfa að taka ákvarðanir sem geta haft áhrif á virðiskeðjur matvæla. Í þeim hópi eru m.a. matvælafyrirtæki, matvælaframleiðendur, þjónustu- og flutningsaðilar í matvælaiðnaði, neytendur og stjórnvöld. Þessi verkfæri munu hjálpa þessum aðilum að skilja og meta hugsanlegar afleiðingar vegna breytinga á rekstrar- og stefnumörkun í víðara samhengi en áður. Vísindamenn: Sigurður Bogason, Hildigunnur Sigurðuardóttir og Guðrún Ólafsdóttir Betri röðun skurðaðgerða Markmið verkefnisins er að hanna hugbúnað sem aðstoðar stjórnendur og innköllunarstjóra við að finna og viðhalda bestu röðun skurðaðgerða með þar til gerðum reikniritum og líkönum. Til að auðvelda notkun kerfisins er sérstök áhersla lögð á sjónræna framsetningu og gagnvirkni. Verkefnið er unnið í samstarfi Háskóla Íslands, Landsspítala og Heilsugreindar ehf. Vísindamenn: Rögnvaldur Sæmundsson og Tómas Philip (verkefni með Landsspítalanum) Rannsóknasetur HÍ Menningarsaga kvenna í sögu og bókmenntum Í rannsókninni „Saga systra“ er markmiðið að varpa ljósi á lífshlaup og örlög sex dætra Sveinbjarnar Egilssonar og Helgu Benediktsdóttur. Í gegnum sendibréf og aðrar heimildir – birtar og óbirtar – sem tengjast fjölskyldunni er rýnt í hvaða möguleika konur höfðu til að njóta hæfileika sinna og lifa hamingjuríku lífi í samfélagi nítjándu aldar á Íslandi. Við sögu koma viðfangsefni á borð við menntun og sjálfsákvörðunarrétt kvenna, nauðungargiftingar, barnadauði, tvírætt kynferði, hjónaskilnaðir, ríkidæmi og fátækt, heilsa kvenna, handavinna sem list og úrræði til afkomu. Til grundvallar liggja spurningar um sjálfsmynd, sjálfstæði og eigið áhrifavald. Vísindamaður: Soffía Auður Birgisdóttir Vísindakaffi í Kaffi Kind, Sævangi Kynnt verður nýtt og viðamikið rannsókna- og miðlunarverkefni á vegum Rannsóknasetursins sem unnið er í samvinnu við söfn og menningarstofnanir, bæði í héraðinu og á landsvísu. Það ber yfirskriftina Menningararfur í myndum og snýst um gamlar ljósmyndir, söfnun þeirra, varðveislu og miðlun. Annað Vísindavefurinn - Viltu vita meira? Vísindavefur Háskóla Íslands er uppspretta forvitnilegra og fræðandi staðreynda um allt mögulegt og ómögulegt milli himins og jarðar. Þjarkur leysir þrautir Legó vélmennin leysa ögrandi þrautir og takast á við stórar áskoranir. Dularfullar efnablöndur Dularfullar efnablöndur, litríkar lausnir og hressilegir hvellir! Efnafræðin svíkur engan. Vísindamaður: Katrín Lilja Sigurðardóttir Vísindasmiðja Háskóla Íslands Óvæntar uppgötvanir, snjallar tilraunir, syngjandi skál og listræn róla. Búðu til þitt eigið vasaljós, smíðaðu vindmyllu, leiktu á furðuleg hljóðfæri. Tengt efni Vísindavaka Rannís European Researchers Night Vísindin í HÍ Vísindavaka 2018 facebooklinkedintwitter