Skip to main content

Sjáum samfélagið - útgáfupartý

Sjáum samfélagið - útgáfupartý - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
22. ágúst 2024 16:30 til 18:30
Hvar 

Háskólatorg

Jarðhæð við bláa vegginn

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Útgáfupartý vegna bókarinnar Sjáum samfélagið, eftir Viðar Halldórsson prófessor í félagsfræði, verður haldið fimmtudaginn 22. ágúst á jarðhæð Háskólatorgs (í rýminu við bláa vegginn). Jafnframt verður opnuð félagsfræðileg ljósmyndasýning undir yfirskriftinni Firring skjásamfélagsins – en sýningin er nokkurs konar hliðarverkefni bókarinnar.

DJ Ísold mun spila vellíðandi tónlist, léttar veitingar verða í boði, og félagslegir töfrar munu spretta upp í samskiptum gesta. Hófið hefst kl. 16.30 og stendur til kl. 18.30. Öll velkomin!

Nánar um bókina Sjáum samfélagið:

Hvað er þetta óljósa fyrirbæri sem við köllum samfélag? Hvernig mótar samfélagið hugsanir okkar, hugmyndir, hegðun og sjálfsmynd? Í þessari nýstárlegu bók leitast Dr. Viðar Halldórsson, prófessor í félagsfræði, við að gera hið ósýnilega afl samfélagsins sýnilegt með því að beita félagsfræðilegu innsæi á fjölda ljósmynda úr hversdagslífi vestrænna samfélaga. Að rýna með slíkum hætti í ljósmyndir gefur lesandanum færi á að frysta augnablik sem alla jafna þjóta fram hjá honum, greina þau og skilja, og breyta þannig upplifunum í þekkingu. Bókin er upplýsandi greining á nútímasamfélaginu og þróun þess og varpar ljósi á félagslega töfra samfélagsins sem og vaxandi firringu þess. Sjáum samfélagið er bók sem enginn var að bíða eftir en allir hefðu gott af því að lesa.

 

Nánar um ljósmyndasýninguna Firring skjásamfélagsins:

Væntanlega ertu að lesa þetta af skjá. Þótt einmitt það geti verið þægilegt þá geta uppsöfnuð áhrif almennrar skjánotkunar haft ýmisleg óæskileg áhrif á líf fólks. Firring skjásamfélagsins er nýstárleg félagsfræðileg ljósmyndasýning sem beinir gagnrýnum sjónum að ótilætluðum áhrifum víðtækrar skjánotkunar á samskipti og samfélag.

Sýningin, sem er á neðstu hæð Háskólatorgs Háskóla Íslands á ganginum sem nefnist Tröð, er byggð á nýrri bók Viðars Halldórssonar, prófessors í félagsfræði, sem ber heitið Sjáum samfélagið. Sýningin verður opnuð fimmtudaginn 22. ágúst og stendur til 6. september. Hún er öllum opin og aðgangur ókeypis. 

Höfundur bókarinnar er Viðar Halldórsson, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands.

Sjáum samfélagið - útgáfupartý