Fornvistfræði selja í Svarfaðardal
Snædís Sunna Thorlacius flytur fyrsta fyrirlestur misserisins í fyrirlestraröð Félags fornleifafræðinga í stofu 202 í Odda, miðvikudaginn 15. janúar kl. 12-13. Erindið nefnist „Fornvistfræði selja í Svarfaðardal“. Verið öll velkomin.
Einnig verður hægt að fylgjast með í streymi á Zoom.
Nánar um fyrirlesturinn:
Seljabúskapur er talinn hafa flust til landsins með landnámsfólki og var stundaður um land allt uns hann leið undir lok um aldamótin 1900. Farið var með skepnur til selja á sumrin til þess að hlífa túnum yfir sumartímann og nýta úthaga til beitar. Flestar fornvistfræðilegar rannsóknir sem gerðar hafa verið hérlendis hafa átt sér stað á láglendi og við bæjartún en lítil áhersla verið lögð á seljasvæði, sem eru yfirleitt lengra inn til landsins og hærra yfir sjávarmáli. Í þessum fyrirlestri verða kynntar niðurstöður fornvistfræðilegrar rannsóknar á tveimur selstöðum í Svarfaðardal, Sökkuseli í landi Sökku og Selhjalla í landi Stóru-Hámundarstaða. Notast er við frjókornarannsóknir auk gjóskulaga- og setlagafræði til þess að endurskapa umhverfi og gróðurfar seljanna og greina þær umhverfisbreytingar sem hafa átt sér stað í nágrenni þeirra undanfarin 2000 ár. Á báðum stöðum var opinn birkiskógur fyrir landnám en á 10. öld varð mannlegra áhrifa vart, þó á ólíkan hátt. Hjá Sökkuseli varð mikil útbreiðsla víðikjarrs sem gæti verið afleiðing nýtingar á birki fram yfir víði. Gróðurbreytingar sem rekja má til beitar má sjá á báðum stöðum uns mólendið sem einkennir staðina í dag hóf innreið sína. Í Selhjalla átti sú þróun sér stað upp úr 1400 e.Kr. sem má mögulega rekja til fólksfækkunar.
Dagskrá fyrirlestraraðar Félags fornleifafræðinga og námsbrautar í fornleifafræði við Háskóla Íslands 2025:
- 15. janúar: Snædís Sunna Thorlacius (Háskóli Íslands). Fornvistfræði selja í Svarfaðardal
- 22. janúar: Dawn Elise Mooney (University of Stavanger). Plant blindness in archaeology: challenges and ways forward
- 29. janúar: Guðmundur Ólafsson. Bærinn undir sandinum - Lykilrannsókn fyrir þróunarsögu grænlenska torfbæjarins og Norrænna miðaldabæja
- 5. febrúar: Jani Causevic (NIKU) - Zoom. Documentation of cultural heritage with digital and non destructive methods
- 12. febrúar: Einar Ísaksson (Háskóli Íslands). Fornleifakönnun á nokkrum örnefnum á Ströndum
- 19. febrúar: Delaney Dammeyer (Háskóli Íslands). On Water: An Entangled Approach to Water Use at Kirkjubæjarklaustur and Þingeyraklaustur
- 26. febrúar: Brenda Prehal - Zoom. Excavating the Unexpected: Findings from Reynistaður
- 5. mars: Ágústa Edwald Maxwell (Historic Environment Scotland) - Zoom. Nýting, neysla og nægjusemi - fornleifafræði rusls
- 12. mars: Ármann Guðmundsson (Þjóðminjasafn Íslands og Háskóli Íslands). Allt upp á einn disk – Fornleifafræðileg tilraun á varðveislu lípíða í ólíkum efnivið
- 19. mars: Birna Lárusdóttir og Ragnheiður Gló Gylfadóttir (Fornleifastofnun Íslands). Minjar í skugga skógar: Áhrif skógræktar á minjar og menningarlandslag
- 26. mars: Guðrún Alda Gísladóttir (Fornleifastofnun Íslands og Durham University). Daglegt líf í Þjórsárdal hinum forna í ljósi efnismenningar
- 2. apríl: Kristborg Þórsdóttir (Fornleifastofnun Íslands). Þing í Skaftafellssýslu - gersemar og glópagull
- 9. apríl: Ramona Harrison (University of Bergen). Heaps of cultural layering: Two Valleys Project. Midden Archaeology in regional and international contexts
Snædís Sunna Thorlacius.